Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:39:00 (4896)

2003-03-13 11:39:00# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skildi hv. þm. þannig að hann ætti bara þó nokkuð erfitt með að styðja ekki þetta mál. Ég skil það mjög vel. Engu að síður hyggst hann ekki gera það. Hann sagði að það væru ekki forsendur fyrir því að stækka núna, og það var m.a. vegna þess að það væri ekki búið að útfæra nægilega vel hvernig ætti að fara í Norðlingaölduveitu.

Það væri forvitnilegt að vita hvaða orkuöflun hv. þm. væri tilbúinn að styðja. Það er ágætt að vitna í rammaáætlun endalaust, en það væri forvitnilegt hvort hann gæti sagt nú að einhver virkjun væri í lagi. Það væri mjög forvitnilegt. (KÓ: Það er stór spurning.) Hann segir að ekki sé tímabært að samþykkja þetta núna, en það vill svo til að í þessum tillögum felst að það eigi að nýta betur Svartsengi upp á 16 megavött. Það er Reykjanes, 80. Og það er ekki Trölladyngja eins og hv. þm. virtist halda, það er við saltverksmiðjuna. Og síðan eru það Nesjavellir, úr 90 í 120. Þetta eru gufuvirkjanir og eftir því sem ég hef skilið þá sem eru tregastir til að virkja hafa þeir alltaf verið frekar hlynntir því að fara í jarðgufuvirkjanir fremur en vatnsafls. Þarna virðist hv. þm. heldur ekki treysta sér til þess að styðja jarðgufuvirkjanir.

Hann talar um sérsamninga vegna skatta og það er aðfinnsluatriði að hans mati. Væri hann tilbúinn að samþykkja þetta ef Norðurál færi bara beint inn í íslenska skattkerfið?