Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:43:08 (4898)

2003-03-13 11:43:08# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt vegna þess að ekki er hægt að virkja öðruvísi en það sem kannski mætti kalla í smáskömmtum þegar um jarðgufuvirkjanir er að ræða af því það þarf að meta og halda síðan áfram með kannski 40 megavött í einu eða eitthvað slíkt. Það gerir einmitt það að verkum að þegar farið er í stóriðjuframkvæmdir eins og nú er gert dugar ekki jarðgufan, þá þarf að fara í vatnsaflsvirkjanir. Það hljóta allir að sjá að það hefði ekki dugað að fara í jarðgufuvirkjanir, t.d. í tengslum við álverið í Reyðarfirði, þó svo að um það hefði verið að ræða á Austurlandi að slíkar auðlindir væru til staðar. Þess vegna er mikilvægt að geta gert hvort tveggja. Í þessu tilfelli er það þannig að verið er safna saman orku af mörgum svæðum og miðað við hvernig tókst að úrskurða í sambandi við Norðlingaölduveitu, og almenn þjóðarsátt ríkir um þann úrskurð sem kveðinn var upp, finnst mér að hv. þm. hefði fengið gott tækifæri núna til þess að sýna að það er ekki um ofstæki að ræða hjá hv. þm. og flokki hans í sambandi við virkjanamál, heldur meta þau hvern kost fyrir sig. Þarna fengu þau eitthvert besta tækifæri til þess að sýna að þau eru sveigjanleg í þessum efnum og styðja góð mál.