Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 12:25:37 (4902)

2003-03-13 12:25:37# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[12:25]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vera að ná sér svona í góðan gír í lokin. Maður fór að kannast við ýmsar athugasemdir og upphrópanir þar. Ekki ætla ég nú að skattyrðast um það hvort frv. hafi verið vel eða illa unnið. Ég lýsti því hér áðan að hv. iðnn. hefði talið málið nógu vel þroskað til að taka það út og gerðu engir nefndarmenn athugasemdir við það, ekki heldur fulltrúi vinstri grænna. Ég vil halda því til haga.

Hvað varðar það sem hv. þm. spurði um sérstaklega, þessa grein að félaginu skuli óheimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár þá er ekki óeðlilegt að þetta standi einfaldlega vegna þess að þessi heimild félagsins er til staðar í dag samkvæmt lögum og það er verið að fella það ákvæði niður. Það má því segja að þetta sé að sumu leyti íþyngjandi fyrir fyrirtækið því þetta eru ákveðin forréttindi kannski sem fyrirtækið hefur haft. Þess vegna er orðalagið með þeim hætti sem um getur.

Hv. þm. efaðist eitthvað um að menn tækju þetta frv. sem hér er til umræðu alvarlega. Ég hygg að flestir innan þingsins geri það, taki þetta mjög alvarlega og ekki síst Vestlendingar. Öll sveitarfélög á Vesturlandi fagna þessu og taka þetta frv. sem hér er um að ræða mjög alvarlega. Hér er verið að fjalla um almenna heimild um stækkun allt að 300 þús. tonnum. En í því frv. sem verður rætt hér á eftir verður sérstaklega rætt um orkuöflunina. Þar er einungis verið að ræða um orkuöflun upp að 90 þús. tonna stækkun. Það sem síðar kemur verður alveg sjálfstæður gjörningur. Það verður fjallað um það sérstaklega. Og þar eru möguleikar ýmsir. Urriðafossvirkjun hefur verið nefnd, Búðarhálsvirkjun. Trölladyngja er ónefnd, Hellisheiði o.s.frv. Það eru síðari tíma mál sem munu verða skoðuð í fyllingu tímans. Hér erum við einungis að ræða um 90 þús. tonnin í tengslum við orkuöflunina sem verður til umræðu á eftir.