Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 12:27:55 (4903)

2003-03-13 12:27:55# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[12:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg laukrétt. Þess vegna væri að sjálfsögðu eðlilegast að afgreiða bara heimildir sem tengjast þeirri stækkun og vera ekkert að gefa út óútfylltar ávísanir og færa fyrirtækinu heimildir í hendur sem á síðan algerlega eftir að útfæra og ákveða hvernig verði þá mætt, hvar verði þá virkjað. Eins og málin standa hjá okkur Íslendingum í dag með rammaáætlunina einhvers staðar hálfkaraða, sem þó vonandi er en verið að vinna að, þá er þetta auðvitað fullkomlega óeðlilegt.

Hv. þm. nefndi virkjunarkosti sem ég hef oft sjálfur nefnt og sem eru miklu álitlegri a.m.k. frá umhverfislegu sjónarmiði séð heldur en margt af því sem menn hafa verið að ráðast í eða ætla að ráðst í. Ég tel t.d. að virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, ef tekst vel til með útfærslu þeirra, séu að mörgu leyti sjálfsagðar þegar þörf verður fyrir þá orku til einhverra skynsamlegra nota, einfaldlega vegna þess að það er búið að fullmiðla rennsli Þjórsár og Tungnaár og menn njóta góðs af því í virkjun neðar í ánni. Í sjálfu sér er miklu, miklu vænlegri kostur að taka það fall og virkja heldur en margt annað sem menn eru að láta sér detta í hug, fara á nýja staði o.s.frv. En þetta á bara að ákveðast skipulega og í réttri röð.

Í raun hefði fyrst átt að afgreiða hér orkulög, koma hinu nýja skipulagi á, klára gerð rammaáætlunar og þá geta menn loksins farið að taka þessar ákvarðanir af einhverju viti. Hv. þm. Hjálmar Árnason hlýtur að verða að viðurkenna að þetta er meira og minna allt saman að gerast í rangri röð.