Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:35:22 (4909)

2003-03-13 13:35:22# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er óvenjulegt að boða til utandagskrárumræðu um stöðu landbúnaðarins og hefja síðan ræðu sína eins og hv. þm. gerir með persónulegu skítkasti í garð ráðherrans sem hefur staðið í stórræðum með bændum landsins síðustu fjögur árin og töluvert árangursríku starfi.

Mig varðar ekkert um slíkt persónulegt skítkast. Það er kannski að verða siður Samfylkingarinnar, og sést best á því að hv. þm. er orðin krati í hópnum. Ég veit ekki betur en að það sé enginn stafur um landbúnaðarmál í stefnuskrá Samfylkingarinnar. Þannig að ég ætla ekki að eyða orðum í svoleiðis skítkast.

Ég vil segja það hér að landbúnaðurinn á Íslandi skapar verðmæti, verðmætasköpun hans er 22--25 milljarðar. Landbúnaðurinn á Íslandi hefur verið í mjög örri þróun síðustu árin. Það ríkir kraftur í flestum búgreinum og mikil fjárfesting og uppbygging hefur átt sér stað, ekki síst í mjólkurframleiðslunni. Það ríkir sátt um íslenskan landbúnað í dag, neytendur og bændur skynja vel hlutverk hvers annars og afurðirnar eru með því besta sem gerist. Bændur hafa verið að stækka grunn sinn og tekjumöguleika. Þeir eru skógræktarbændur, þeir eru landgræðslubændur, þeir eru ferðaþjónustubændur, þeir eru bændur íslenska hestsins, og mörg gríðarleg verkefni sem ég hef verið að vinna að á nýjum sviðum blasa við.

Hér er t.d. fyrirsögn úr Dagblaðinu: ,,Milljarðaframleiðsla á lyfjaensími úr íslensku byggi.`` Byggið, kornið, hörinn og þess vegna lífmassahugsun í kringum lúpínu --- það er óskaplega margt sem blasir við og bændur eru að vinna af mikilli bjartsýni. Þó að kjör þeirra sem stéttar séu mjög misjöfn er mjög rangt að leggja umræðuna upp eins og menn gera, að allir bændur séu fátækir og eigi bágt. Við eigum mjög sterka bændur og mjög margir þeirra eru að gera góða hluti.

Ég vil hér segja hvað sauðfjárbændur varðar að þeir fengu nýtt fjöregg í minni tíð í upphafi, nýjan samning um starfskjör sín, nýjan búvörusamning sem inniheldur mikla möguleika, gæðastýringu og nýja framtíð. Þeir eru að byrja að vinna úr þessum samningi og þótt kjör sauðfjárbænda séu slök að meðaltali hafa þau batnað frá 1995 um 20%. Þeir eiga möguleika í gegnum samninginn á að fara í svipaða þróun og gerist í mjólkurframleiðslunni.

Samningagerð við kúabændur er hafin á nýjan leik og komin í gang. Þar hefur verið gríðarleg þróun í mjólkurbúskapnum. Íslenskar kýr hafa aukið meðalnyt sína úr 4 þús. lítrum í 5 þús. Tekjur af hverri kú hafa aukist um 30% á sjö árum. Fjárfesting greinarinnar hefur vaxið um 124% á sjö árum, sem sýnir þrótt ungu stéttarinnar í þeirri atvinnugrein. Meðalbúið hefur stækkað úr 90 þús. lítrum í 127 þús., eða um 40%. Tekjur bændanna sem stunda þessa búgrein hafa vaxið um 44%.

Ég vísa á bug öllu bulli um að ég sé aðallega skemmtikraftur. Mér þykir að vísu vænt um að þjóðin vill þó hlusta á mig sem heldur skemmtilegan mann --- að því er hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir segir, ég held því ekki fram. (Gripið fram í.) Hvað væri nú ef ég væri næstleiðinlegasti maður þessa lands? Hver mundi þá hlusta? (Gripið fram í.) Ég held að hér í þingsalnum séu ýmsir sem enginn vill hlusta á svo að ég er tiltölulega sáttur við þessa stöðu og skammast mín ekki fyrir það. Það hefur aldrei verið til skammar að geta sagt góðar sögur á þorrablótum. Ég fór að vísu bara á tvö í ár, því miður. En ég er fyrst og fremst stjórnmálamaður og hef verið að taka af mikilli alvöru á landbúnaðarmálunum.

Hins vegar blasir vandi við, og við hann er ég að glíma. Ég vil segja við hv. þingmann að ég lít ekki á kosningarnar sem lokadag. Ég trúi því að neytendur og bændur muni kjósa mig áfram sem landbrh. og ég muni halda starfinu. Ég mun gera allt sem ég get til þess að reyna að taka á með bændunum í heild sinni. Það eru mikil sóknarfæri hjá sauðfjárbændum og í kjötframleiðslunni, sem ég hélt að hv. þm. ætlaði að ræða hér, þann vanda sem þar er, og ég tel að stjórnvöld eigi að rétta þeim hjálparhönd án þess að ganga gegn samkeppni og samkeppnislögum. Hitt er svo ljóst, hæstv. forseti, að það er auðvitað bændanna, við gefum þeim lög og við gefum þeim ramma og starfsumhverfi, í því hef ég verið. Þeir verða síðan auðvitað að vinna úr sínum málum og mér finnst að þeir séu í öllum búgreinum að gera það af töluvert meiri lífsgleði en oft hefur verið, og mesti þróttur í íslenskum landbúnaði hefur verið á þessu kjörtímabili, ef tekin eru síðustu 20 árin, hv. þingmaður.