Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:41:04 (4910)

2003-03-13 13:41:04# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Fyrir rétt einu ári var að minni beiðni utandagskrárumræða á hinu háa Alþingi um stöðu sauðfjárbænda. Þá þegar var ljóst að hverju stefndi í sauðfjárbúskapnum. Á því eina ári sem liðið er síðan --- við hæstv. landbrh. áttum hér orðastað --- hafa allar búgreinar í kjötframleiðslu siglt í mikla rekstrarörðugleika og er nú svo komið að gjaldþrot virðist blasa við hjá mörgum bændum. Offramleiðsla er í hvíta kjötinu, og eins og staðan er í dag er stærsti hluti framleiðslunnar seldur undir framleiðsluverði. Framleiðendur nautakjöts hafa um langan tíma orðið að selja sínar afurðir undir framleiðsluverði og blasir gjaldþrot við þeim innan tíðar ef ekkert verður að gert.

Fyrir ári síðan benti hæstv. landbrh. á þau úrræði að tryggja afurðalán í gegnum Byggðastofnun og að til stæði að hann beitti sér fyrir því að ábyrgð bænda yrði takmörkuð til að tryggja þá fyrir áhrifum gjaldþrota hjá sláturleyfishöfum. Að öðru leyti benti hann á að í gangi væru margar mótvægisaðgerðir, ferðaþjónusta, hestamennska o.s.frv., eins og hann gerði í ræðu sinni áðan. Þessar mótvægisaðgerðir, herra forseti, eru góðar til lengri tíma litið en koma að litlu gagni í stöðunni í dag.

Herra forseti. Nú blasa við gjaldþrot víða um land hjá bændum og það verður því að grípa til opinberra aðgerða til að forða svo víðtækum gjaldþrotum. Bændur verða auk þess að hafa möguleika á og vilja til að draga úr offramleiðslunni og koma kjötmarkaðnum í jafnvægi við neyslu á innanlandsmarkaðnum. Offramleiðsla er mikil og sláturleyfishafar og bankar bera ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á kjötmarkaði.