Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:43:11 (4911)

2003-03-13 13:43:11# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Samkvæmt niðurstöðu búreikninga árið 2001 frá Hagþjónustu landbúnaðarins kemur fram að við kúabú eru greidd laun og launatengd gjöld um 342 þús., en fjöldi búa að baki þessum útreikningi eru 168 framleiðendur með meðalframleiðslu upp á 127 þús. lítra. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í mjólkurframleiðslu á síðustu árum, kynbætur hafa bætt stöðuna með vaxandi afurðum og hagkvæmni í framleiðslunni og framtíð þessara bænda er best tryggð með stöðugleika í rekstrarumhverfi sem best verður treyst með framlengingu á óbreyttum samningi.

Sauðfjárbú greiddu í laun og launatengd gjöld 116 þús. kr. en fjöldi búa að baki þessu eru 103 og meðalframleiðsla upp á þá tæp 6 þús. kíló.

Staða sauðfjárbænda sem ekki hafa annað starf er langt frá því að vera góð. Við því þarf að bregðast, það þarf að greina vandann og vinna sig út úr honum. Bændur eru bjartsýnt og duglegt fólk sem hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni til að styrkja búsetuna með aðstoð ríkisins. Má þar nefna verkefnið ,,Bændur græða landið`` en í því eru um 600 bændur. Þá vinna 40--50 bændur í verktöku á vegum Landgræðslu ríkisins í fjölþættum verkefnum. Skógræktarverkefnin hafa vaxið ár frá ári. Nú er í meðförum landbn. þáltill. frá ríkisstjórninni sem felur í sér að samtals fari í þessi verkefni 662 millj. á næsta ári. Ný verkefni verða til eins og línrækt en 10 bændur voru í línrækt á liðnu ári og er feygingarverksmiðja að rísa í Þorlákshöfn. Þá vil ég minna á þróun próteinframleiðslu í notkun í lyfjaiðnaði og ef vel tekst til þar mun það skapa fjöldamörg störf. Vægi ferðaþjónustunnar er mikið en í dag er hún næststærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsmanna. Hrossarækt og hestamennska er vaxandi þáttur í íslenskum landbúnaði sem eflir ferðaþjónustuna og styrkir tengsl dreifbýlis og þéttbýlis.

Það er mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina að finna leiðir til lækkunar á flutningskostnaði. Það þarf að halda áfram að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í sveitum landsins með öflugan landbúnað sem kjölfestu.