Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:11:08 (4923)

2003-03-13 14:11:08# 128. lþ. 99.1 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér eru að koma til atkvæðagreiðslu samgönguáætlanir fyrir árin 2003--2014 og 2003--2006.

Ég hef í ítarlegu nál. gert grein fyrir áherslum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í samgöngumálum og þeim atriðum sem við hefðum viljað sjá raðað með öðrum hætti inn í þá áætlun sem hér er verið að greiða atkvæði um. Við höfum lagt áherslu á að við erum andvíg aukinni einkavæðingu í samgöngumálum, hvort sem það er í framkvæmdum eða í rekstri almannasamgöngumannvirkja. Við höfum líka lagt áherslu á almenningssamgöngur svo nokkuð sé nefnt.

Engu að síður er í þessari samgönguáætlun lagt í verulega miklar framkvæmdir úti um allt land sem eru til mikilla samgöngubóta, og er því ástæða til að fagna því. Það er sérstök ástæða til að fagna þeim auknu framkvæmdum sem eru m.a. lagðar í vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og Norðausturlandi en það er forgangsverkefni að haga þannig framkvæmdum að góðir vegir með bundnu slitlagi komist um allar byggðir landsins.

Virðulegi forseti. Að gefnum fyrirvörum og þeim athugasemdum sem eru tilgreindar í nál. munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs styðja þá samgönguáætlun sem hér liggur fyrir. Það liggur að vísu fyrir brtt. frá undirrituðum sem kemur til atkvæða á eftir.