Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:33:21 (4931)

2003-03-13 14:33:21# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 1. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum. Ég er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. og mæli fyrir áliti 1. minni hluta iðnn.

Tilgangur þessa frumvarps er að afla iðnaðarráðherra heimilda til að leyfa gerð Norðlingaölduveitu, stækkun Nesjavallavirkjunar og byggingu nýrrar jarðvarmavirkjunar til raforkuframleiðslu á Reykjanesi. Frumvarpið er fram komið vegna viðræðna milli Landsvirkjunar, stjórnvalda og Norðuráls um stækkun álversins á Grundartanga. --- Herra forseti. Ég er alveg tilbúinn að gera hlé á máli mínu þangað til þögn er komin í salinn.

(Forseti (GuðjG): Forseti verður enn að biðja hv. þm. að hafa hljóð í salnum og að samtöl fari fram utan salar en ekki innan.)

Í þeim viðræðum hefur verið gert ráð fyrir að stækkunin komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Stækkun sem fæli í sér 90 þús. tonna ársafkastagetu yrði tekin í notkun snemma árs 2006 og 60 þús. tonna afkastageta bættist svo við árið 2009.

Fyrir liggur samkomulag á milli Landsvirkjunar og Norðuráls um orkuafhendingu til fyrri áfanga áformaðrar stækkunar. Í áætlunum Norðuráls er reiknað með að framleiðsla álversins kunni síðar að aukast í allt að 300 þús. tonn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir stækkun á Nesjavallavirkjun en þar eru nú þrjár vélasamstæður með 30 MW afli hver, eða samtals 90 MW. Tvær þessara vélasamstæðna voru teknar í notkun 1998, en 16. júní 1997 veitti iðnaðarráðherra Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa allt að 60 MW virkjun á grundvelli heimilda í lögum um raforkuver. Þriðja vélasamstæðan var síðan tekin í notkun árið 2001 samkvæmt leyfi iðnaðarráðherra. Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir að Nesjavallavirkjun verði stækkuð í allt að 120 MW. Það felur einnig í sér heimild til að stækka raforkuverið í Svartsengi, en þar er nú unnið heitt vatn sem hitar upp alla byggðina á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að í Svartsengi megi auka orkuframleiðsluna um 16 MW. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Alþingi veiti lagaheimild fyrir 80 MW raforkuvinnslu á Reykjanesi en það er nýtt raforkuver. Loks er gert ráð fyrir Norðlingaölduveitu, en með henni er vatni veitt úr Þjórsá af Norðlingaöldu í Þórisvatnsmiðlun. Tilgangur Norðlingaölduveitu er að bæta við rennsli í gegnum virkjanir sem þegar hafa verið reistar við Vatnsfell, Sigöldu og Hrauneyjarfoss og auka þar með orkuvinnslu þeirra.

Þær upplýsingar hafa komið fram á fundum með forsvarsmönnum orkuveitufyrirtækjanna í Svartsengi og á Nesjavöllum að óhætt sé talið að auka rafmagnsframleiðsluna í Svartsengi um 16 MW. Jafnframt hefur komið fram að varlega þurfi að fara í sakirnar vegna virkjunar á Reykjanesi. Hingað til hefur verið talið að það þurfi að bora, skoða hvernig svæðið vinnur og virkja í áföngum. Það kemur því algjörlega á óvart ef nú er allt í einu talið óhætt að virkja hratt og fara í 80 MW á Reykjanesi á einu bretti eða á mjög skömmum tíma til þess að afhenda rafmagn á tilsettum tíma til stækkunar álversins á Grundartanga. Að því er Nesjavallasvæðið varðar hefur einnig komið fram að ráðlegt þætti að bíða með frekari orkuvinnslu á því svæði vegna þess að þar hefur orðið vart örlítils niðurdráttar á svæðinu. Það er því full ástæða til að staldra við, rannsaka þessi svæði frekar og skoða málin frá öllum sjónarhornum. Það er ákaflega mikilvægt að hafa heildstæða mynd af orkuvinnslugetu Nesjavallasvæðisins vegna þess að hér er ekki aðeins um raforkuframleiðslu að ræða heldur vinnslu á heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið. Hér er mikið í húfi og nauðsynlegt að kortleggja orkubúskap svæðisins með tilliti til afhendingarmöguleika á höfuðborgarsvæðið til langs tíma.

Um Norðlingaölduveitu vísast til umsagnar minni hluta umhverfisnefndar en þar er sérstaklega fjallað um umhverfisþátt þessa máls. Umsögnin er birt með nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar í þessu máli.

Eins og ljóst má vera eru í frumvarpinu heimildir til iðnaðarráðherra til víðtækra leyfisveitinga fyrir umfangsmiklum virkjunum með það að markmiði að afhenda rafmagn til stóraukinnar álframleiðslu hjá Norðuráli. Með því væri enn aukin hlutdeild þungaiðnaðar í raforkukaupum hér á landi og enn frekari áhersla lögð á einhæfni íslensks atvinnulífs þegar einmitt er brýn þörf fyrir nýsköpun og fjölbreytni. 1. minni hluti iðnaðarnefndar minnir á rammaáætlun sem unnið er að um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og telur einsýnt að bíða eigi með allar ákvarðanir um framkvæmdir á þessu sviði þar til heildaráætlun liggur fyrir sem byggð er á því starfi.

Í ljósi þess sem að framan segir leggur 1. minni hlutinn til að frumvarpið verði fellt.