Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:40:19 (4932)

2003-03-13 14:40:19# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. undraðist nokkuð að það skyldi vera farið hratt í orkuöflun á Reykjanesi rétt eins og það væri einungis verkefni sem væri sprottið upp vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga. Ég held að rétt sé að draga það fram, af því að fram kom í umræðunni í morgun að örlítils misskilnings hefur gætt hjá hv. þm., að hér er ekki verið að ræða um Trölladyngju. Verið er að ræða um svæðið í kringum saltverksmiðjuna á Reykjanesi þar sem farið hafa fram mjög ítarlegar orkurannsóknir á liðnum árum. Ég spyr því hv. þm. hvort hann vantreysti þá mati sérfræðinga Orkustofnunar sem telja að óhætt sé að fara í þessar aðgerðir, hvort hann vantreysti þá Hitaveitu Suðurnesja sem á auðvitað mikilla hagsmuna að gæta að ofbjóða ekki orkulindunum sem þarna eru og hvort hv. þm. vantreysti þá lögum um mat á umhverfisáhrifum því að í frv. kemur fram að verði farið í virkjanir á Reykjanesi þurfi þær eins og aðrar að fara í gegnum ferli sem snertir mat á umhverfisáhrifum.

Í annan stað vil ég svo spyrja hv. þm. af því að hann klifar enn á því, eins og heyrist gjarnan hjá hv. þm. Vinstri grænna, að tala um einhæft atvinnulíf í kringum stóriðju. Telur hv. þm. að það sé mjög einhæft þegar hátt í 20 starfsstéttir vinna innan álvers, þegar fyrir liggur að fjölmörg nýsprotafyrirtæki hafa sprottið upp í samstarfi við álver og alls kyns þjónusta sem hefur dafnað í kringum álver er bæði á Grundartanga og eins í Hafnarfirði? Telur hv. þm. að allt þetta sé einhæft atvinnulíf?