Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:48:07 (4936)

2003-03-13 14:48:07# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 2. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er þetta frv. órjúfanlega tengt frv. um álbræðslu á Grundartanga því að í þessu frv. er verið að leita heimilda vegna þeirrar orkuöflunar sem þarf að verða vegna fyrirhugaðrar stækkunar Norðuráls. Þar er um að ræða í fyrsta lagi það að Orkuveita Reykjavíkur fái leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 120 megavatta afli. Eftir því sem fram hefur komið þarf Orkuveitan að bæta við einni vél til þess að auka aflið um þessi 30 megavött sem þeir ætla að framleiða til viðbótar eða eru að skapa forsendur til að geta framleitt til viðbótar og miðað við það sem fram hefur komið sér Orkustofnun ekkert því til fyrirstöðu.

Í öðru lagi er um að ræða að Hitaveita Suðurnesja fái leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Reykjanesi með allt að 80 megavatta afli og þá þarf auðvitað að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Jafnframt er beðið um leyfi til að stækka jarðvarmavirkjun félagsins í Svartsengi um 16 megavött. Í þessu tilfelli, herra forseti, mælir Orkustofnun með jákvæðri afgreiðslu. Samfylkingin styður að farið verði í þessar virkjanir og okkar upplýsingar um þessi mál og viðræður við aðila segja að það sé allt í góðu og við styðjum þessar framkvæmdir.

Í þriðja lagi verður Landsvirkjun samkvæmt frv. heimilað, að fengnu leyfi iðnrh., að reisa og reka vatnsmiðlun, Norðlingaölduveitu, í samræmi við skilyrði er fram koma í úrskurði setts umhvrh. frá 30. janúar sl. Frv. fylgir eins og fram hefur komið álit Orkustofnunar varðandi Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, hvort tveggja jákvætt, en síðan fylgir frv. sem fskj. III yfirlit Landsvirkjunar yfir framkvæmdirnar við Norðlingaöldu.

Herra forseti. Það er skemmst frá því að segja --- ja, ég veit ekki hvort það er einhver þingtæknileg niðurstaða --- að sú niðurstaða ráðuneytisins að ganga frá frv. þannig að Landsvirkjun fái einhliða að láta fylgja sem fylgiskjal yfirlit sitt yfir þessar framkvæmdir, sínar hugmyndir að útfærslunni, hefur valdið ákveðnum titringi. Herra forseti. Bara það að þetta fylgiskjal er með frv. og þau viðbrögð sem hafa orðið við þessum úrskurði setts iðnrh. segja okkur hversu viðkvæmur hann er. Menn eru á varðbergi gagnvart því hvernig farið verður í málið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, herra forseti, að í þessari umræðu fari hæstv. iðnrh. yfir það hvaða gildi fskj. III hefur, hvort það hefur einhverja sérstaka merkingu að það skuli vera þarna með frv. eða hvort hér er hreinlega um slys að ræða.

Það er alveg ljóst að í úrskurði setts umhvrh. sem er tiltekinn í lagagreininni er skýrt kveðið á um að um útfærsluna skuli vera samráð milli fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem eiga hlut að máli, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar. Landsvirkjun er einungis einn af þremur aðilum sem þarf að koma að þessu samkomulagi. Markmið þessa samráðs er að full sátt náist um þessa útfærslu og það er auðvitað alveg ljóst að eftir þá kynningu sem var á úrskurði setts umhvrh. horfa menn mjög til útfærslu VST sem almenn ánægja var með þegar kynnt var. Þess vegna, herra forseti, kom það á óvart og hefur ýft geð margra sem áður höfðu fagnað úrskurði setts umhvrh. að sjá þetta yfirlit Landsvirkjunar sem sérstakt fylgiskjal með frv.

Herra forseti. Ég vil undirstrika það að sú sem hér stendur er ekki að gera úr þessu mál. Sannarlega hefði ég viljað að við hefðum áfram getað siglt rólega þann sjó sem hæstv. settur umhvrh. var í rauninni búinn að skapa allar forsendur fyrir varðandi þessa vatnsmiðlun við Norðlingaöldu. Það virðist hafa verið afar óheppileg ákvörðun að vera með þessa útfærslu Landsvirkjunar sem sérstakt fylgiskjal og þess vegna, eins og ég segi, kalla ég eftir því að ráðherra geri það alveg skýrt í umræðunni hvert gildi þessa plaggs er. Við viljum, fulltrúar Samfylkingarinnar, ítreka að við lítum svo á að þær leiðir sem eru einhliða birtar séu ekki bindandi á nokkurn hátt enda er samráðsferli í gangi sem á að skila niðurstöðu sem allir geti sæst á.

Með nál. okkar fylgja ábendingar Más Haraldssonar, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem hann sendi eftir fund með nefndinni svo að ljóst megi vera hver sjónarmið þeirra eru og menn geta þá borið saman við fskj. III. Herra forseti. Í þessu áliti eða greinargerð Más segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í úrskurði ráðherra er gert að skilyrði að lón og mannvirki séu utan friðlandsins og hafi ekki áhrif á náttúrufar innan þess.

Í tillögu VST er miðað við lónhæð 566 metra yfir sjávarmál, fyrst og fremst vegna þess að aurskolun virkar ekki við hærri lónhæð (minni landhalli í og við lón, mun stærri flötur, gróið land).

Sú sátt sem er um úrskurðinn byggir alfarið á hugmyndinni um lónhæð 566 metra yfir sjávarmál, bæði vegna umfangs lónsins og auðleystari vandamála við setmyndun.

Ef gerð er krafa um hærri lónhæð er sáttin úr sögunni enda þótt skilyrðum um lón og mannvirki utan friðlands sé fullnægt.``

Herra forseti. Það sýnir okkur kannski í hversu viðkvæmri stöðu málið er að oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps sér sig knúinn til að senda þessa ályktun frá sér á þessum tíma vegna fskj. III með frv. Því endurtek ég mikilvægi þess að hæstv. ráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum í umræðunni þannig að menn geti endurnýjað það traust sem þeir áður höfðu til úrskurðar setts umhvrh. og beðið rólegir á meðan samráðsferlið er í gangi í þeirri trú að þar muni menn ná niðurstöðu sem allir geti á endanum orðið sáttir við.

Herra forseti. Ég vil þá víkja að öðru atriði sem hlýtur að vera öllum hlutaðeigandi umhugsunarefni en samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum virðist umhvrh. geta úrskurðað þannig í málum að niðurstaðan verði raunverulega ný framkvæmd sem ekki virðist þarfnast umhverfismats. Spurningin er hvort hér sé verið að setja fordæmi fyrir framtíðina og hvers við megum þá vænta. Ekki er víst að að alltaf eigi við að almennari ánægja ríki með úrskurð ráðherra en Skipulagsstofnunar eins og gerðist í þessu tilfelli. Og þó að menn séu ánægðari í þessu tilfelli með úrskurð ráðherra en þeir voru með Skipulagsstofnun getum við ekki litið fram hjá því að hér gætum við verið að setja ákveðið fordæmi sem menn væru síðan ekki jafnsáttir við ef það reyndist leiða til annarrar niðurstöðu síðar. Þetta hlýtur eins og ég sagði að vera mönnum umhugsunarefni, hvort þetta var eitt af því sem menn gerðu ráð fyrir þegar verið var að setja lögin um mat á umhverfisáhrifum, hvort menn gerðu beinlíns ráð fyrir því að úrskurður umhvrh. gæti getið af sér nýja framkvæmd sem væri þá í rauninni undanþegin þessu mati. Þetta er sett til umhugsunar og það gleður mig að formaður umhvn. er viðstaddur þessa umræðu og veltir þessu máli væntanlega fyrir sér. Ég geri ráð fyrir að hann sé þegar farinn að gera það og hafi gert strax.

Það er líka ástæða til að vekja eftirtekt á því að eftir að ný raforkulög hafa tekið gildi, væntanlega þann 1. júlí í sumar, þarf iðnrh. ekki að leita til Alþingis með ákvarðanir um einstakar virkjanir. Ég er ekki viss um, herra forseti, að menn hafi gert sér grein fyrir því hversu veigamikil breyting er hér að verða varðandi umfjöllun Alþingis og orkumál. Nú er ekki búið að afgreiða frv. en að öllum líkindum verður staðan orðin þannig að iðnrh. tekur ákvarðanir um að heimila einstakar virkjanir án atbeina Alþingis. Það má líka velta því fyrir sér í þessu samhengi og vegna þessa frv. af hverju leitað er til Alþingis með einstakar veitur þar sem ákvæði í vatnalögum gera það í raun óþarft. Þetta eru spurningar eins og: Af hverju er leitað til Alþingis með Norðlingaölduveitu? Menn spyrja þess. Þeir sem hafa mestar áhyggjurnar velta því fyrir sér hvort verið sé að leita til Alþingis með veituna og stinga þarna inn fskj. III í leiðinni til þess að búa til ákveðna atburðarás eða setja upp tiltekna senu, gefa ákveðinn forgang sem verði með tilteknum hætti lögfestur og viðurkenndur.

Hér er ég, herra forseti, að enduróma það sem ég heyri og er fyllsta ástæða til að taka tillit til. Ég vænti að hæstv. ráðherra hreinsi þetta út hér á eftir þegar hann fjallar um stöðu fskj. III með frv. Það er bagalegt þegar framsetning þingmáls er með þeim hætti að það ýfi upp deilur sem áður hafði tekist að setja niður. Þrátt fyrir það treystum við fulltrúar Samfylkingarinnar því að samráð heimamanna, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar leiði að lokum til niðurstöðu sem sátt getur orðið um. Við styðjum frv., enda verði farið eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum og útfærsla Norðlingaölduveitu verði í samræmi við úrskurð setts umhvrh.

Undir þetta álit skrifa Svanfríður Jónasdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir.