Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 15:00:35 (4937)

2003-03-13 15:00:35# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt um álit 2. minni hluta. Ég tel að varðandi þetta mál eitt og sér sé enginn efnislegur ágreiningur. Munurinn á nefndarálitum felst í öðrum þáttum sem óbeint tengjast málinu, t.d. um hvaða stöðu úrskurður umhvrh. hefur hverju sinni, hvort hann þurfi nýtt matsferli og þar fram eftir götunum. Það er vissulega áhugaverð ábending og þörf umræða. En ég tel að hún eigi ekki efnislega við um þetta frv. Ég legg áherslu á að ég sé ekki efnislegan ágreining á milli meiri hluta iðnn. og 2. minni hluta.

Það er líka rétt að árétta að þetta frv., eins og margoft hefur komið fram, byggir á hinum glæsilega úrskurði setts umhvrh. Jóns Kristjánssonar. Við megum ekki gleyma því, þar sem Þjórsárver eru friðuð. En viðbrögð ýmissa aðila sem hv. þm. vísaði til, m.a. heimamanna, sýna í hnotskurn hversu viðkvæmt þetta mál er. Það eru svo sem engin ný tíðindi. Það hefur verið vitað að viðkomandi svæði er afskaplega viðkvæmt. Þetta er mikið tilfinningamál og því er brýnt að stíga varlega til jarðar. Ég tel að þau sjónarmið sem hv. þm. dró fram, t.d. sjónarmið Gnúpverja, frá Má Haraldssyni oddvita Gnúpverja, séu þannig að við í meiri hluta iðnn. tökum undir þau og virðum þau viðhorf. En okkur ber líka skylda til að virða sjónarmið Landsvirkjunar. Út á það gengur úrskurðurinn, að þessir aðilar leiði hesta sína saman ásamt Umhverfsstofnun. Það er meginatriðið í málinu. Við fengum það staðfest í iðnn. eins og hv. þm. veit. Það ferli er hafið, er í gangi og menn ganga jákvæðir og bjartsýnir til þess samráðs.