Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 15:57:55 (4940)

2003-03-13 15:57:55# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er með þrjár spurningar til hv. þm.

Í fyrsta lagi: Trúir hv. þm. á koldíoxíðmengun, á þá kenningu, og því að hún valdi hitnun jarðar?

Önnur spurning: Í svari hæstv. umhvrh. til mín á þingskjali 1225 kemur fram að sú 8% aukning á framleiðslu áls í heiminum frá 1990--1998 er að mestu leyti framleidd með rafmagni sem búið er til með brennslu jarðefna, að meginhluta kola. Þar kemur fram að í Suður-Afríku, og mér er kunnugt um það að í Suður-Afríku er verið að byggja mjög stór álver sem byggja á raforku frá mjög stórum raforkuverum sem brenna kolum, heilum fjöllum af kolum núna. Það kemur líka fram í þessu svari að Kárahnjúkavirkjun sparar 160% af allri koldíoxíðmengun Íslendinga miðað við að það sama ál yrði framleitt í Suður-Afríku eða annars staðar þar sem brennt er með kolum. Sér ekki hv. þm. það sem skyldu okkar Íslendinga --- þetta eru 160% af allri koldíoxíðmengun Íslendinga bæði vegna bíla, skipa og flugvéla --- að framleiða ál með mengunarlausri orku?

Svo er það þriðja spurningin: Er það ekki rétt skilið hjá mér að Suður-Afríka sé á sama hnetti og við á Íslandi og þau umhverfisverndarsamtök sem gagnrýna notkun mengunarlausrar orku til að framleiða ál?