Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 16:30:36 (4949)

2003-03-13 16:30:36# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. 1. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[16:30]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt verð ég að byrja á því að fara aðeins inn á það sem síðasti ræðumaður talaði um. Hann benti á að í fyrsta lagi væri frv. tilbúið og þá væri ekkert að vanbúnaði ef nefndin ekki skilaði, því þá mundi III. kaflinn bara smella inn. En það er fleira eftir. Ekki er búið að ganga frá því hvernig jöfnuninni á að vera háttað, það nægir því ekki að frv. sé tilbúið. Svo fer það alltaf svolítið í taugarnar á mér þegar menn kenna Evróputilskipunum um mál vegna þess að við erum komin lengra með þetta mál. Alþingi er búið að samþykkja. Alþingi samþykkti árið 2000 að lögleiða þetta mál eða fella þetta inn í EES-samninginn. Það er því í rauninni Alþingi sem ákvað þessa málsmeðferð og ákvað að gera þetta svona. Þannig vil ég a.m.k. líta á það, herra forseti, en ekki að vera að gera það að einhverju máli hér þó að áður hafi verið tilskipun Evrópusambandsins. Eftir að Alþingi er búið að samþykkja að fella hana inn í EES-samninginn, þá er þetta orðið mál Alþingis sem Alþingi á að reyna að standa við á réttum tímamörkum sem það hefur þó ekki gert í þessu tilfelli.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það hefur út af fyrir sig verið reynt því að frv. til nýrra raforkulaga hefur tvisvar áður verið lagt fram á Alþingi án þess þó að vera rætt. Það var bæði lagt fram á 126. og 127. þingi. Í fyrra skiptið, á 126. þingi, kom málið inn í þingið á síðustu dögum en var þó vísað til nefndarinnar sem sendi það út til umsagnar og hélt auk þess nokkurs konar ráðstefnu um málið austur á Hvolsvelli um sumarið. Og segja má að afrakstur þeirrar vinnu hafi birst í því frv. sem var sýnt hér á 127. þingi. Því máli var hins vegar aldrei vísað til nefndarinnar og hún vann í sjálfu sér ekkert meira með það.

Það kom þess vegna nokkuð á óvart að nú í upphafi 128. þings skyldi málið ekki vera lagt fram strax, en það lenti augljóslega í þæfingi á milli stjórnarflokkanna vegna þess að það var öllum ljóst sem fylgdust með að einstakir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru engan veginn sáttir við málsmeðferðina, jafnvel þó að þeir hefðu á sínum tíma samþykkt hana með því að samþykkja að fella tilskipunina inn í EES-samninginn vorið 2000. Bæði geystist hér fram Björn Bjarnason í aðdraganda þess að hann varð borgarfulltrúi og hafði uppi miklar meiningar um raforkulagafrumvarp í ógöngum og síðan hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem tók þátt í umræðunni, 1. umr. um málið og hafði sínar meiningar, en það var alveg augljóst að ekkert samkomulag var innan ríkisstjórnarinnar um málið, eða alla vega ekki gagnvart einstökum stjórnarþingmönnum.

Það er því ljóst, herra forseti, miðað við það frv. sem nú liggur fyrir til afgreiðslu, að ekki náðist að landa málinu, þ.e. ríkisstjórnin hafði ekki þrek til að takast á við málið í heild sinni. Það er bara einfaldlega þannig. III. kafla frv. er vísað til nefndar og því er líka vísað til nefndar með hvaða hætti eigi að jafna kostnað við flutning og dreifingu raforku. Það er því fyrirkomulag flutnings á raforku, þar með talin stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess skuli háttað, uppbygging á gjaldskrá fyrir flutning á raforku og jöfnun raforkukostnaðar sem er óafgreitt þó að sá texti sem hér liggur nú fyrir verði að lögum. Á meðan bíður orkugeirinn þess sem verða vill og aðrir þeir sem hagsmuna eiga að gæta. Og það er mjög miður, herra forseti. Það er miður að Alþingi skyldi ekki takast á við málið í heild sinni vegna þess að sannarlega hefðu bæði ég og fleiri viljað sjá það allt fyrir sér áður en það yrði afgreitt frá Alþingi.

Ég vil þó taka fram að þeir kaflar frv. sem nú stendur til að afgreiða hafa verið vel unnir. Vinna þeirra embættismanna og sérfræðinga sem iðnn. hafði í þjónustu sinni var til fyrirmyndar. Ég minnist þess varla að hafa áður fengið jafngóða þjónustu af hálfu sérfræðinga og embættismanna eins og varðandi vinnsluna á þessu frv. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni, þótt við treystum okkur ekki til að mæla með samþykkt frv., munum við styðja einstakar breytingartillögur og taka afstöðu til einstakra greina við atkvæðagreiðslu í ljósi þess hve vinnan hefur verið góð og hvernig við höfum í rauninni komið að henni, tekið fullan þátt í þeirri vinnu sem fór fram til þess að bæta og breyta þeim ákvæðum sem nú á að afgreiða sem lög frá Alþingi.

Eins og fram hefur komið, herra forseti, eiga þessi nýju raforkulög að svara efni tilskipunar frá Evrópusambandinu sem Alþingi samþykkti að fella inn í EES-samninginn vorið 2000. Með þeirri samþykkt lagði Alþingi grunninn að þeim breytingum sem hér eru til afgreiðslu. Og þær átti að vera búið að innleiða í íslensk lög hinn 1. júlí 2002.

Samkvæmt frv. ber að tryggja forsendur fyrir samkeppni í sölu og vinnslu raforku. Við getum aldrei tryggt samkeppni, herra forseti, en við getum tryggt forsendurnar, búið til þær forsendur að samkeppni geti átt sér stað. Þar eru lagðar til reglur sem eiga að tryggja jafnræði aðila til vinnslu og sölu raforku og jafnan aðgang að flutnings- og dreifikerfunum.

Flutningur og dreifing orkunnar eru samkvæmt frv. skilgreind sem náttúrlegir einokunarþættir. Það er ekki gert ráð fyrir nema einu kerfi, við förum ekki að leggja tvöfaldar lagnir til þess að menn geti verið að keppa þannig, heldur er þetta skilgreint sem náttúrlegir einokunarþættir, en allir framleiðendur og notendur hafi aðgang að. Og að eitt fyrirtæki muni stýra flutningi orkunnar um landið en mörg geta dreift henni á afmörkuðum svæðum. Samkeppnin samkvæmt frv. getur þá orðið á milli þeirra sem framleiða orkuna og síðan milli þeirra sem selja hana á hinum mismunandi dreifingarsvæðum, þ.e. smásalanna í raforkunni.

Fram hefur komið í þessari umræðu og ekki bara í þessari umræðu --- heldur hefur þetta mál beint eða óbeint oftsinnis komið til umfjöllunar og umræðu á Alþingi á undanförnum árum á meðan við höfum beðið þess að fá málið til endanlegrar umfjöllunar og afgreiðslu og hefur það oft komið til umfjöllunar þegar við höfum verið að fjalla um önnur mál á orkusviði --- að Samfylkingin er ekki á móti þeim anda frv. eða þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki, að forsendur verði skapaðar fyrir samkeppni á þeim sviðum þar sem hún á við.

Við ítrekum það að öll viðleitni í þá átt að skapa jafnræði á markaði og gegnsæi ákvarðana er af hinu góða, enda, eins og hér kom fram, munum við styðja þær breytingartillögur sem koma fram og einstakar greinar frv. þó að við styðjum ekki frv. í heild sinni þegar kemur að lokaafgreiðslu þess.

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið og vinnu við þetta mál hefur ýmsum spurningum verið svarað og framsögumaður meiri hluta nefndarinnar fór yfir ýmislegt af því áðan. Eitt af því sem hefur verið áberandi í umræðunni er að þeir eru býsna margir sem fullyrða að raforkuverð muni hækka, að aðstæður okkar séu það mikið aðrar en á Evrópumarkaðnum, hinum samtengda markaði, að hér muni raforkuverð ekki lækka eins og þar, heldur hækka. Það eru því eðlilegar áhyggjur sem menn hafa af því hver niðurstaðan verður fyrir neytendur og einnig af því hvernig hinum félagslega þætti verður þá endanlega fyrir komið, vegna þess að þó að stóru ágreiningsefnin séu komin í nefnd og nefndin sé stór, 17 manna nefnd, þá eru þau ágreiningsefni sannarlega ekki leyst.

Nefnd sem iðnrh. skipaði 23. febrúar 2001 til að meta umfang óarðbærra eininga í raforkukerfinu og koma með tillögur um hvernig staðið skuli að jöfnuði, skilaði til ráðherra strax í maí sama ár. Og þær tillögur sem sú nefnd setti fram fylgja frv. sem fskj. V. Ekki hefur náðst samstaða um þá framkvæmd eins og ég gat um og málinu áfram vísað í nefnd. Sömuleiðis er gert ráð fyrir starfshópi sem fjalli um meðferð sokkins kostnaðar hér á landi, það eru því ýmsir þræðir sem enn er verið að vinna með. Og, herra forseti, bara til að nefna það af því að svo mörg mál eru í deiglunni og margt sem er óafgreitt, þá eigum við líka eftir að sjá starfshóp fjmrh. skila af sér ákvæðum um skattalega meðferð orkufyrirtækjanna. Það er ekki ljóst hver hún verður og við veltum því fyrir okkur hvort fyrirtæki sem komin eru á samkeppnismarkað geti verið skattlaus eins og orkufyrirtækin eru í dag. Í dag eru orkufyrirtækin skattlaus án tillits til rekstrarforms þeirra. Við breyttum orkulögum til þess að gera það kleift svo lögin væru ekki þrándur í götu þeirra fyrirtækja eða þeirra sveitarfélaga eða eigenda fyrirtækjanna ef þeir vildu breyta forminu, hætta að vera með þau sem stofnanir á vegum sveitarfélaga eða opinberra aðila og breyta þeim yfir í hlutafélög eða sameignarfélög. En við hljótum að velta því fyrir okkur hvort fyrirtæki sem eru komin á samkeppnismarkað geti verið skattlaus. Við eigum eftir að sjá niðurstöður starfshópsins gagnvart því, þannig að það liggur ekki fyrir þó við séum hér að afgreiða frv. eða séum á síðustu metrunum með frv. eða hluta þess sem á að afgreiða núna.

Auðvitað eru fleiri spurningar sem vakna sem að hluta til verður væntanlega svarað af þessari stóru nefnd. En, herra forseti, það bíður nýrrar ríkisstjórnar að afgreiða þá þau ákvæði sem á eftir að sýna eða eiga eftir að koma fram eða þær ákvarðanir sem á eftir að taka og lúta að umhverfi raforkufyrirtækjanna og raforkuviðskipta og vinnslu á Íslandi.

Eins og ég sagði mælum við fulltrúar Samfylkingarinnar ekki með stuðningi við frv. í þeim búningi sem það er nú. Með því að styðja frv. gætu þingmenn allt eins verið að styðja þau ákvæði III. kafla frv. um flutning sem nú er í frv., eins og fram kom áðan hjá formanni iðnn., vegna þess að ef nefndin, sem fyrirhugað er að skipa samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII, nær ekki samkomulagi og skilar af sér í tíma, þá tekur kaflinn gildi eins og hann stendur í frv. Nefndin á einnig að fjalla um með hvaða hætti eigi að jafna kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku og þar liggur ekkert fyrir heldur.

III. kafli, um flutning raforku, gæti því tekið gildi óbreyttur þann 1. júlí 2004 án niðurstöðu um jöfnun kostnaðar og það væri algjörlega óviðunandi staða. Staðan er því sú, herra forseti, að þó svo að við munum styðja einstakar breytingartillögur og einstakar greinar af því sem afgreitt verður, þá munum við ekki styðja afgreiðslu málsins í heild sinni vegna þessara vankanta, vegna þess að málið er ekki fullbúið og okkur sýnist að það hljóti að vera á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem ekki gat klárað málið á þeim tíma sem hún hafði til þess að það skuli vera afgreitt með þeim hætti sem hér stendur til að gera.

Herra forseti. Það er slæmt að þessi stóru atriði skuli ekki vera afgreidd nú, heldur vísað í nefnd, en það er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og það er auðvitað til þess veruleika sem við tökum afstöðu.

En varðandi hitt frv. sem hér er einnig undir, frv. um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði, þá er það, eins og hér hefur komið fram, órjúfanlegur hluti þessara breytinga. Gera þarf ákveðnar breytingar á ýmsum lögum á orkusviði til þess að aðlaga þau lög þeim breytingum sem verða á raforkusviðinu. Hluti af þeim breytingum snýr að Landsvirkjun þar sem Landsvirkjun mun ekki lengur hafa þær skyldur við orkukaupendur í landinu sem hún hefur haft hingað til. Landsvirkjun mun þannig ekki lengur hafa skyldur til þess að afhenda stóriðjufyrirtækjum orku ef eftir því er óskað. Í leiðinni breytist auðvitað líka sá réttur Landsvirkjunar, sem margir hafa séð ofsjónum yfir, að fyrirtækið gæti nánast valið úr þeim kostum sem eru til virkjunar, vegna þess að fyrirtæki sem ekki hefur skyldur getur ekki heldur haft forréttindi. Ég hygg að ýmislegt af því sem hér er á döfinni og mun fylgja með þeim breytingum sem verða bæði með þessu frv. og hinu sé kannski ekki orðið öllum alveg ljóst.

Ég gat þess í umfjöllun um annað mál fyrr í dag að e.t.v. hefðu ekki allir gert sér það ljóst að eftir að raforkulagafrv. verður að lögum, sem verður að öllu óbreyttu 1. júlí í sumar, þá munu ákvarðanir um virkjanir eins og þær sem við höfum verið að fjalla um fyrr í dag, ekki koma til Alþingis heldur verða teknar af ráðherra. Mér finnst í rauninni merkilegt hversu lítið hefur verið fjallað um þann þátt. Þar með er ég ekki að segja, herra forseti, að ég sé á þeirri skoðun að slíkar ákvarðanir eigi heima í þinginu, ég hef verið þeirrar skoðunar og við að rétt væri að hafa um þetta almennar reglur og síðan væri það framkvæmdarvaldið sem sæi um leyfisveitingar. En hér er sem sagt um hluta af þeirri nýskipan að ræða sem fylgir þessari löggjöf.

Þetta frv. um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði er órofatengt frv. til nýrra raforkulaga. Við þingmenn Samfylkingarinnar munum því einnig sitja hjá við afgreiðslu þess þegar kemur að lokaafgreiðslu.