Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 16:47:35 (4950)

2003-03-13 16:47:35# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Herra forseti. Við fjöllum um frv. til raforkulaga og ég er frsm. 2. minni hluta iðnn. sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. Það er mikilvægt að það komi fram hér í byrjun að þetta frv. er auðvitað á grunni EES-tilskipunar sem Alþingi samþykkti og ég vil halda því til haga hér að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði mótmæltum þeirri samþykkt harðlega á sínum tíma og vöruðum hv. Alþingi mjög við hvað væri í vændum. Við töldum þá að við hefðum átt að freista þess að fá undanþágu frá þessari tilskipun vegna eðlis bæði raforkuvinnslunnar og dreifikerfisins á Íslandi og þeirrar staðreyndar að Ísland er algjörlega ótengt Evrópulöndum hvað þessa framleiðslu varðar og verður um áraraðir það að séð verður.

Í frv. segir að markmið laga þessara sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal:

1. Skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna.

2. Stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku.

3. Tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.

4. Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti.

Ég vil skjóta því inn í, virðulegi forseti, að ég er sammála því sem hefur komið fram í ræðum manna að umfjöllunin um frv. var mjög vönduð og þeir embættismenn sem aðstoðuðu nefndina gerðu það á allan hátt með prýði. Sannast sagna hef ég ekki unnið í nefnd með embættismönnum sem hafa lagt sig eins mikið fram og gert vinnuna eins auðvelda og hér var um að ræða.

Iðnn. kallaði til sín marga umsagnaraðila, m.a. frá orkuvinnslufyrirtækjunum, sveitarfélögunum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fékk fjölda umsagna um málið. Meiri hlutinn leggur fram brtt. við frv. í 21 lið samkvæmt ábendingum, aðallega frá stærstu orkufyrirtækjunum. Það var farið í gegnum þetta allt í nefndinni á sínum tíma.

Hér er um að ræða heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku. Hún er sögð byggjast á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem rutt hafa sér til rúms víða um heim á undanförnum árum og felur það í sér að skilið er á milli einstakra þátta raforkukerfisins, flutnings og dreifingar og þeirra þátta þar sem samkeppni verður við komið, eins og vinnslu og sölu. Þá er með frv. verið að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um innri markað á raforku, 96/92/EB, sem var hluti af EES-samningnum með ákvörðun EES-nefndarinnar frá 26. nóvember 1999. Aðalmarkmiðið með orkutilskipun Evrópusambandsins var að auka hagkvæmni og nýtingu í kerfinu á meginlandi Evrópu þar sem talið var að um 20--25% offramleiðslu væri að ræða. Samkeppni á markaði á meginlandi Evrópu í framhaldi af þessum kerfisbreytingum mun hafa leitt til betri nýtingar og orðið til verulegrar lækkunar á rafmagni til iðnaðar, a.m.k. tímabundið, en lítils háttar lækkun til almennra notenda.

Hér á landi eru hins vegar allt aðrar aðstæður og er 2. minni hluti þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin, eins og ég sagði hér áður, hefði átt að sækja um undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins á þeirri forsendu að Ísland hefur sjálfstætt og eigið raforkukerfi, og vinnsla, dreifing og sala því óháð öðrum hlutum Evrópu. Það hefur sýnt sig að þau raforkukerfi sem ekki voru tengd innan Evrópusambandsins, eins og á Spáni, hafa ekki notið verðlækkunar á rafmagni við þessa breytingu, enda mun lítið hafa verið um flutningslínur á milli Spánar og annarra landa í Evrópu. Þessi sérstaða Spánar hefur leitt til þess að rafmagn á Spáni hefur hækkað. Og maður freistast til þess að halda samkvæmt þeim upplýsingum sem borist hafa frá Evrópu að staða Íslands sé að mörgu leyti svipuð og staða Spánar. Línulagnir yfir Píreneafjöll voru ekki á dagskrá á Franco-tímanum og þess vegna hefur Spánn ekki nýtt aukaframleiðslugetu sína upp á 20--25% sem var í raforkukerfi Evrópu.

Það sem er alvarlegast er að það er mat flestra orkufyrirtækja hér á landi að verði þetta frv. að lögum hafi það í för með sér umtalsverðan nýjan kostnað og muni valda hækkun orkuverðs en ekki lækkun eins og ýmsir hafa haldið fram. Þessi kostnaðarauki stafar m.a. af auknum kostnaði vegna mælinga, eftirlits, uppgjörs og arðsemiskröfu vegna flutnings- og dreifikerfa. Því er haldið fram að leitað verði allra leiða til þess að minnka þennan kostnað og hefur meiri hlutinn með brtt. sínum gert ráðstafanir til þess að lágmarka þennan kostnaðarauka. Það er þó mat minni hlutans að verði þetta frv. að lögum muni það leiða til hækkaðs orkuverðs í landinu og því getur minni hlutinn ekki stutt frv.

Í frv. er ákvæði til bráðabirgða þess efnis að iðnrh. skipi nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti fimm fulltrúar frá Samorku, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Þá skal fjmrh. skipa einn fulltrúa í nefndina og iðnrh. tvo og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.

Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings á raforku, sem er eitt meginmálið varðandi allar þessar breytingar, þar með talið um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá skal nefndin móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku. Jafnframt skal nefndin móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku.

Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnrh. eigi síðar en 31. desember 2003.

Að mati 2. minni hluta er algjörlega ótækt að samþykkja eins viðamikið raforkulagafrumvarp og hér um ræðir án þess að taka á stærstu þáttum hvað varðar raforkuvinnslu og raforkudreifingu, heldur vísa þeim til nefndar í ákvæði til bráðabirgða.

Þá er algjörlega óviðunandi að ekki skuli tekið á félagslegri hlið þessara mála sem snýr að langmestu leyti að orkuveitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins og orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða. Rafmagnsveitur ríkisins eru að stærstum hluta kaupendur raforku og framleiða aðeins um 7% af eigin afli til dreifiveitna sinna. Orkubú Vestfjarða er einnig stór kaupandi raforku. Bæði þessi fyrirtæki kaupa raforku frá Landsvirkjun fyrir dreifikerfi sín en þó er Orkubú Vestfjarða að því leyti betur sett að það framleiðir um 40% af raforku fyrir sitt eigið svæði, að stofni til mest frá Mjólká. Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins dreifa orkunni að stærstum hluta í dreifbýli, sem gerir það að verkum að notendur á þeim svæðum búa við miklu hærra orkuverð en tíðkast á höfuðborgarsvæðinu og t.d. á Akureyri og Suðurnesjum. Annar minni hluti telur að bíða ætti með þessar kerfisbreytingar þar til heildstæðar lausnir hafa verið settar fram á því hvernig staðið verði að jöfnun orkukostnaðar. Í löndunum í kringum okkur hefur verið tekið á því með ýmsu móti. Sums staðar er sett framleiðslugjald á raforkuna, sem við getum kallað þá auðlindagjald, annars staðar er jafnað með mismunandi skattlagningu á orku, þ.e. lægri skattlagningu, t.d. virðisaukaskatti, í dreifbýli. Annars staðar er stuðlað að jöfnun með beinum framlögum úr ríkissjóði þar sem orkuveitufyrirtækjunum er greitt fyrir að afhenda orku í dreifbýli. Þau sjónarmið komu sterklega fram í umræðum í iðnn. að e.t.v. væri heppilegt í þessu samhengi að taka á þessu hér á landi með innheimtu sérstaks mælagjalds. Undir öllum kringumstæðum verða þessi atriði að liggja ljós fyrir þar sem ekki er hægt að sætta sig við að stór hluti landsmanna búi við miklu hærra orkuverð en aðrir eins og raunin er nú.

Í ljósi þess sem að framan segir leggur 2. minni hluti því til að frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og það unnið á þann hátt að tekið sé á öllum þáttum sem óleystir eru í sambandi við fyrirkomulag flutnings á raforkunni, stærð flutningskerfis, hvernig rekstri flutningskerfisstjórnar skuli háttað og uppbyggingu gjaldskrár í landinu fyrir flutning raforku. Jafnframt verður að liggja fyrir með hvaða hætti eigi að jafna kostnað við flutning og dreifingu orkunnar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að greina frá minnihlutaáliti mínu úr hv. iðnn. Ég vil segja í framhaldi af þessu að ég tel, og það vil ég árétta, það algjörlega óásættanlegt að fara fram með þetta frv. núna. Það er algjört lágmark að beðið verði til haustsins og það verði tekið á þeim þáttum sem eru svo mikilvægir fyrir dreifbýlið. Það kom skýrt fram í störfum nefndarinnar að auðvitað eru fulltrúar stærstu þéttbýlissvæðanna ekki allsendis óánægðir með þetta form sem hér er sett fram, þ.e. hálfkarað verk, vegna þess að þegar kemur fram á sumarið og haustið verða þeir, þ.e. þéttbýlissveitirnar hér á suðvesturhorninu og á Akureyri, að mínu mati í miklu sterkari stöðu til þess að ráða því hreinlega hvernig þessi jöfnunarþáttur verður framkvæmdur. Það er ekki viðunandi lausn. Það er hv. Alþingi sem á að leggja það niður fyrir sér með hvaða hætti jöfnun á kostnaði við raforkuna fer fram. Við eigum að velta fyrir okkur öllum þessum leiðum. Þéttbýlissveitirnar hafa sagt að af tvennu illu sé best að samþykkja frv. þó að það taki ekki á þessum veigamiklu þáttum. Ég tel að það sé aðeins í þeirra hag að gera það á þann hátt.

Virðulegi forseti. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum greiða atkvæði á móti þessu frv. á þeirri forsendu að það sé ekki heildstætt, það taki ekki á mikilvægum málum, mikilvægustu málunum í frv., jöfnun og dreifingu.