Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:01:27 (4951)

2003-03-13 17:01:27# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg undrandi á hv. þm. og þingmönnum Vinstri grænna að ætla að greiða atkvæði á móti þessu máli vegna þess að þeir hafa ekki bent á neina aðra leið sem væri skynsamlegri. Reynt er að nota það sem yfirbragð að við tökum ekki á félagslega þætti málsins sem varðar dreifikerfið. Þetta finnst mér í raun vera rök sem eru nokkuð langsótt vegna þess að hv. þingmenn vita það mjög vel að ríkisstjórnin hefur uppi áform um og hefur talað mjög skýrt hvað það varðar að tekið verði á þessum félagslega kostnaði og hefur nefnd verið að störfum sem kom fram með tvær tillögur í þeim efnum. Eins og frv. var kynnt þegar því var dreift síðast í þinginu var reiknað með því að lagt yrði á sérstakt gjald á hverja kílóvattstund, sem var upp á 18 aura ef ég man rétt, en hins vegar vegna þess að ekki var algjör samstaða um þá útfærslu, þá töldum við rétt að beina þessu mikilvæga máli til þeirrar nefndar sem verður að störfum, þar sem fulltrúar allra þingflokka koma að. Það að hv. þingmenn séu á móti málinu af því það eigi að fara í nefnd þar sem þeir muni sjálfir eiga fulltrúa, það finnst mér ekki vera frambærileg rök.

Og að vera hér með einhvern samanburð við Spán og aðrar þjóðir eins og hv. þm. gerði, er bara ekki boðlegt. Því eins og hann hefur sjálfur sagt er Ísland mjög sérstakt í sambandi við raforkukerfið og margt annað sem að þessu máli lýtur. Ég fullyrði að búið er að leysa þetta mál á mjög farsælan hátt í frumvarpinu.