Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:03:40 (4952)

2003-03-13 17:03:40# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:03]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. verður alltaf steinhissa ef við í stjórnarandstöðunni skrifum ekki upp á hennar leiðir. Hæstv. iðnrh. er fullkunnugt um það að við höfum af einlægni fylgt þessu máli eftir alveg frá fyrstu metrum. Við vildum sækja um undanþágur. Við höfum lýst því yfir að við værum hlynnt því að endurskoða raforkulögin og fyrirkomulag raforkumála á eigin forsendum. Þar á meðal hugmyndir um það t.d. að taka út fyrir sviga framleiðslu til stórra notenda með stofnun á sérstöku fyrirtæki. Ég hef margoft haldið ræður hér í þinginu þar sem ég hef lýst því yfir hversu andstætt og mótdrægt landsbyggðinni það kerfi er sem við búum við, þ.e. Rarik og að hluta til Orkubú Vestfjarða, varðandi dreifingu til dreifbýlisins. Ég hef margoft lýst því yfir að það væri algjörlega óviðunandi. Við erum þingnefnd sem hefur verið að vinna í þessum málum þannig að nefnd sem er skipuð fulltrúum þingflokkanna verður að stofni til ekkert öðruvísi samsett en hv. iðnn. sem hefur unnið að þessum málum. Hér er því um algjörar hártoganir að ræða.

Og ef hæstv. iðnrh. getur nú ekki skilið samlíkinguna við Spán, þá erum við í verri málum en ég hélt. Ég var að benda á að Spánn hefur ekki þá tengingu inn í Evrópu vegna sögu sinnar sem önnur lönd í Evrópu hafa. Þar af leiðandi má að mörgu leyti líkja Spáni við Ísland. Á það hefur verið bent og m.a. hafa margir hagsmunaaðilar hér og þeir sem komu fyrir nefndina lýst yfir áhyggjum sínum og raunar sannfæringu sinni fyrir því að þessar breytingar muni leiða til hækkaðs raforkuverðs í landinu.