Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:05:42 (4953)

2003-03-13 17:05:42# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talar enn um undanþágu. Það er mál sem við ræddum nokkuð við 1. umr. og ég hélt að ég hefði útskýrt það hvernig ráðuneytið stóð að málum í sambandi við það að reyna hugsanlega að fá undanþágu frá tilskipuninni. En málið er að það hefur engin þjóð sem á aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði fengið undanþágu frá þessu. Það þurfa allir að taka þátt í frelsinu sem varðar vinnsluna. Allar þjóðir. Hins vegar fengum við það samþykkt og viðurkennt að við værum lítið og einangrað raforkukerfi og þar af leiðandi fengjum við sömu meðferð í raun og Lúxemborg. Og ef við gætum sýnt fram á að það væri verulegum vandkvæðum bundið að innleiða tilskipunina, væri Evrópusambandið til viðræðna um það. Orkustofnun gaf þá það álit að það væri ekki verulegum vandkvæðum bundið að innleiða þessa tilskipun, og ég er alveg innilega sammála því, og þar af leiðandi gerum við það. Það er ekki eins stórt mál og hv. þm. vill vera láta. Eftir að hafa unnið í þessu máli núna í þrjú ár eða hvað það nú er, þá er ég betur og betur sannfærð um það að þetta fyrirkomulag hentar okkur alls ekki illa. Það er alveg kominn tími til að stokka upp þetta kerfi sem við erum með og koma á meira gegnsæi en verið hefur. Það er eitthvað sem er jákvætt fyrir neytendur að vita eitthvað um það hvernig raforkuverð verður til. Það veit það ekki nokkur maður í dag. Nefndin sem mun starfa er ekki bara skipuð þingmönnum, það eru náttúrlega fulltrúar frá orkufyrirtækjunum og fleiri.