Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:10:16 (4955)

2003-03-13 17:10:16# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, EOK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:10]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ræddi þessi mál við 1. umr. og hef reyndar rætt um þau mjög oft á ýmsum vettvangi og er rétt að taka það fram svo það sé alveg skýrt og fari ekki á milli mála, að ég er persónulega sannfærður um að það hafi verið mistök af okkar hálfu að samþykkja tilskipunina vorið 2000, þessa 96/92/EB, vegna þess að ég er mjög sannfærður um að það sé verulegum vandkvæðum bundið að framkvæma hana þó Orkustofnun sé á annarri skoðun, líka vegna þess að aðstæður á Íslandi, eins og ég hef oft rakið, eru gjörsamlega allt aðrar en í Vestur-Evrópu. Tilskipunin er mjög eðlileg miðað við aðstæður allar í Vestur-Evrópu.

Ég er líka sannfærður um það að við hefðum fengið slíkar undanþágur. Alveg sannfærður um það. Enda klagar það hvergi upp á nokkurn aðila hvernig við skipum orkumálum okkar. Við erum ekki tengdir Evrópu og það vita allir að það er ekki í augsýn, ekki í neinni augsýn að við tengjumst henni með þeirri tækni sem við þekkjum í dag.

Ég er líka sannfærður um það, herra forseti, að við hefðum getað leitað miklu ódýrari leiða til að hafa þokkalega skipan á þessum málum en að fara að elta þessa tilskipun. Eins og ég hef áður farið yfir og við þekkjum öll erum við mjög fámenn þjóð í mjög stóru, dreifbýlu landi og það er aðalatriði málsins. Við uppbyggingu raforkukerfanna hefur það alla tíð verið höfuðsjónarmið allra í öllum flokkum að við ætluðum að rafvæða Ísland, við ætluðum að standa að jöfnuði um flutningskostnaðinn og við ætluðum að leggja okkur alla fram við að tryggja öryggi rafmagnsins. Þetta hafa verið sjónarmiðin og um það hafa ekki verði pólitískar deilur á Íslandi. Ég ætla ekki að gera það að frekara umræðuefni. Ríkisstjórnin ákvað að flytja þetta frv. og fara þessa leið, það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir. Ég tel það einnig alveg ljóst að sú leið mun valda okkur mjög miklum kostnaði. Mjög miklum kostnaði. Sumir segja að ég sé að gera mikið úr þessu. Eftirlitskostnaðurinn verði ekki svona gríðarlega mikill eins og ég vil vera láta. Ég get ekkert sannað um það, herra forseti, en sporin hræða. Við höfum fyrir framan okkur þessar eftirlitsstofnanir hins opinbera og við stöndum frammi fyrir því að við ráðum ekkert við þann kostnað. Því ættum við að ráða núna við slíkt apparat sem við ætlum enn þá einu sinni að fara að setja í gang úr því að við ráðum ekki við þau sem við erum þegar með? Hvað segir það okkur? Auðvitað borgar enginn þann kostnað nema þeir sem kaupa raforkuna. Það er almenningur í landinu og það eru fyrirtækin í landinu. Við erum þannig að skerða bæði kaupmátt, lífskjör og samkeppnishæfni atvinnugreinanna úti á landi. Þær munu standa verr að vígi.

Látum nú þetta vera. Ákveðið er að fara þessa dýru leið. Þá er hitt eftir, herra forseti, sem mér finnst skelfilegt og sorglegt að það er gert þannig að aðalatriði málsins fyrir allt dreifbýli Íslands er sleppt. Aðalatriðinu, sem er flutningurinn og jöfnun flutningskostnaðar, því er sleppt. (Gripið fram í.) Því er sleppt. (Gripið fram í.) Skipað er í nefnd, mig minnir að það séu átján sem eigi að vera í henni, átján (Gripið fram í: Sautján.) eða sautján kannski, ég þakka fyrir að vera leiðréttur með þetta, þakka fyrir það. Það er betra að hafa þetta rétt. (HBl: Þó ég hefði átján augu, öllum mundi til þín renna, segir í gamalli ástarvísu.) Það er falleg vísa.

Hér sagði hæstv. iðnrh. áðan að það væru ekki frambærileg rök að vera á móti því að taka aðalatriði málsins, aðalatriði hins pólitíska máls út úr frv. og setja fyrir nefnd, vegna þess að hver þingflokkur ætti þar fulltrúa. Þetta er þó meiri málsmeðferðin sem Alþingi Íslendinga, þessi löggjafarsamkunda ætlar að fara að taka upp þá. Ef það eru pólitísk mál sem skipta öllu höfuðmáli, þá er allt í lagi að taka það bara út úr og Alþingi hætti að fjalla um það, vegna þess að það kemur fulltrúi frá hverjum þingflokki. Jú, þetta eru nefnilega mjög frambærileg rök að vera á móti málinu, bara af þeirri einu ástæðu að við erum að taka út aðalatiði málsins sem skiptir öllu fyrir hinar dreifðu byggðir. Það eru mjög mikil rök. Og það er þannig og við þekkjum það í baráttu okkar til þess að standa að því að samkeppnishæfni atvinnulífsins úti á landi fái staðist, að við mætum engum velvilja. Það er a.m.k. mjög sjaldan sem við mætum honum. Ég hef því ekki í reynsluheimi mínum nokkuð það sem gefur mér ástæðu til þess að trúa, ekki nokkurn skapaðan hlut sem gefur mér ástæðu til að trúa. Alþingi, löggjafarsamkundunni ber að taka á og afgreiða hin viðkvæmu pólitísku mál. Það er enginn annar sem á að gera það og enginn annar um það bær. Enginn annar.

Þess vegna er það skelfilegt, herra forseti, að nú skuli vera farin sú leið að þetta sé tekið út úr, afgreiða á það í einhverri sautján manna nefnd og ef hún nær ekki saman, þá á III. kaflinn að taka gildi, þar sem ekkert er kveðið á um jöfnuðinn. Það er mjög erfitt fyrir landsbyggðina að hafa þetta þannig eins og við þekkjum. Ég skal taka Vestfirði sem dæmi. Þar erum við með jöfnun. Hver borgar þar jöfnunargjöldin? Jú, það eru íbúar þéttbýlisstaða. Íbúar Ísafjarðar standa undir hinu dreifðu rafveitum o.s.frv. Þannig er þetta líka gagnvart Rarik-svæðinu. Það er eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar að koma þeirri sjálfsögðu og eðlilegu og sanngjörnu skipan á að allir standi að þessu, ekki eingöngu þéttbýlisstaðirnir úti á landi eins og Ísafjörður, heldur allir. Það er grundvallarmálið. Og Alþingi mátti ekki líta af þessu máli fyrr en það væri tryggt. Það mátti ekki gerast.

Því er það, herra forseti, að bæði af efnislegum ástæðum sem ég hef rakið í upphafi, svo og vegna þess hversu hörmulega hefur til tekist um þetta atriði, þ.e. flutninginn sjálfan sem er aðalatriðið, að það skuli ekki vera tekið á því og afgreitt. Það er þess vegna, herra forseti, sem það liggur alveg kýrskýrt fyrir að ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv. Það hefur ekki oft gerst, ég efast um að það hafi nokkurn tímann gerst áður að ég væri sammála stjórnmálaflokk sem kallar sig Vinstri grænir. Ég held að það sé nokkurn veginn alveg víst að ég hafi nánast alltaf verið ósammála þeim, ég held alltaf. (Gripið fram í: Önnur kinnin er orðin græn.) En ég vil taka undir það sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sagði áðan í lokatali sínu. Það er alveg hárrétt sem hann sagði og ég vil taka undir það og þakka fyrir.