Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:33:26 (4963)

2003-03-13 17:33:26# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Borgaralega sinnað fólk hefur lengi verið fylgjandi samkeppni af einni meginástæðu, vegna þess að sannanirnar liggja í milljónatali fyrir því að samkeppni lækkar verð á þjónustu. Eingöngu vegna þess. Það er engin samkeppni vegna samkeppninnar sjálfrar. Það er vegna þess að við höfum milljónir sannana fyrir því.

Á Íslandi, 103 þús. ferkílómetrum með 286 þús. manns, kemur maður ekki samkeppni við nema að mjög takmörkuðu leyti, og alls ekki í dreifingu raforku úti á landsbyggðinni. Henni verður ekki komið við norður á Ströndum, ekki upp til dala, það er ekki hægt. Reynum að segja Strandamönnum að það verði svo mikil samkeppni um raforkuna norður í Árneshreppi. (SvanJ: En í símanum?) Það er þess vegna sem menn fara í samkeppni, þeir telja sér hag í því. Ég taldi að Ísland ætti að leita eftir sérsamkomulagi vegna sérstöðu sinnar. Af engum ástæðum öðrum. Til þess að vinna að hlutunum á sinn hátt til þess að tryggja hagkvæmni rekstrar þannig að íslensk fyrirtæki hefðu sem besta samkeppnisstöðu. Það eru íslenskir hagsmunir sem við eigum að reyna að verja og það er samkeppnisstaða Íslands. Það er það sem skiptir máli. Þess vegna eigum við að leita ódýrustu lausnanna hverju sinni, ekki þeirra dýrustu. Við þurfum ekki að elta aðra, við eigum að gera þetta eins og okkur er hagkvæmt því að það er hagkvæmni íslensks atvinnurekstrar sem skiptir máli. Ekki að hlaupa eftir einhverjum hugmyndum um að samkeppni eigi alltaf að vera hvort sem henni verður komið við eða ekki.