Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:13:27 (4973)

2003-03-13 20:13:27# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:13]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þm. að frestur renni út á morgun varðandi þá fyrirspurn sem hún hefur lagt fram. Hið rétta er að fyrirspurnin var dagsett 4. mars og fresturinn er veittur í tíu virka daga samkvæmt þingsköpum sem þýðir að svarfrestur rennur út nk. þriðjudag. Fyrirspurnin er í 12 liðum og mjög ítarleg og það er því mjög líklegt að ráðuneytið hefði þurft að sækja eftir auknum fresti til svara. Byggðastofnun sá um gerð samninganna og greiðslur vegna þeirra og ráðuneytið hefur leitað til stofnunarinnar eftir upplýsingum vegna fyrirspurnarinnar. Þau svör sem bárust upplýstu hins vegar ekki alla þætti og þess vegna telur ráðuneytið nauðsynlegt að leita á ný til stofnunarinnar eftir frekari upplýsingum. Í 6. lið var óskað eftir fordæmum við tilfærslu lífeyrisréttinda. Ráðuneytið hefur leitað til starfsmannaskrifstofu fjmrn. og fékk þau svör að þar er ekki haldið utan um starfslokasamninga. Ráðuneytið þyrfti því að skrifa til annarra ráðuneyta og undirstofnana til að fá svör við þeirri spurningu. Það er því augljóslega ekki hægt að verða við því að svara þessari fyrirspurn ef þingi lýkur á morgun en miðað við það að hv. þm. hefur nú breytt fyrirspurninni, ég veit ekki hvernig þingsköp snúa að því, hvort það þarf þá að dreifa nýju þskj. í kvöld en ég get alveg reynt að svara einhverjum af þessum spurningum á morgun en ekki þessum 12 liðum. Það er augljóst.