Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:18:54 (4977)

2003-03-13 20:18:54# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það eru fordæmi fyrir því að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað öllum spurningum á fyrirspurnaskjali. Ég hef lent í því að fá svör við hluta spurninganna og við öðrum spurningum sem hafa borist ráðherranum hafa komið svör um það að ekki hafi gefist tóm til eða ekki tekist að svara öllum spurningunum.

Hæstv. forseti talar um að það fresturinn sé tíu dagar. Það má vera fyrr, hámarkið er tíu dagar. Ég fer fram á það að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem hún hefur svör við á fyrirspurn minni. Ég mun ekki gera athugasemdir við það ef hún hefur ekki einhver af þessum svörum tiltæk en ég get ekki ímyndað mér annað en hæstv. ráðherra viti hversu mikið það hefur kostað ríkissjóð að gera þessa starfslokasamninga. Það hlýtur að liggja fyrir. Enda var ég búin að fá svar við fyrirspurnum um starfslokasamninga Byggðastofnunar þannig að allar þessar upplýsingar hljóta að liggja á borði inni í ráðuneyti hjá hæstv. ráðherra því að hér eru aðeins viðbótarspurningar sem ég lagði fram eftir að ég hafði fengið svar við fyrri fyrirspurn minni um sama efni.

Ég fer fram á það, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra sendi forseta svör á morgun við þeim spurningum á fyrirspurnaskjalinu sem hún hefur tiltæk. Svör við öðrum spurningum geta þá hljóðað upp á það að hæstv. ráðherra hafi ekki svörin á reiðum höndum.