Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:21:11 (4979)

2003-03-13 20:21:11# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er fullkomlega ástæðulaust að lesa mér pistilinn hér og fara yfir þingsköpin með mér. Ég kann þau út í hörgul. Og hafi hæstv. forseti fylgst með orðum mínum, þá fór ég þess á leit við hæstv. ráðherra að ef svo færi að þing væri farið heim, hvort hún væri ekki tilleiðanleg að senda okkur í pósti, án atbeina forseta þingsins, þau efnisatriði sem um er spurt. Það var erindi mitt fyrst og síðast og lýtur ekki að þingsköpum í einu eða öðru.

Það er hins vegar athygli vert, herra forseti, að í hvert einasta skipti sem starfslokasamninga, og þeir eru ófáir, ber á góma á hinu háa Alþingi þá virðist allt fara á annan endann og menn bara missa sig gjörsamlega. Ég rifja upp í því sambandi leynisamninginn við forstjóra Pósts og síma sem, þrátt fyrir tilraunir nefndarmanna í samgn. um að fá þaðan út, fékkst ekki og laut að þáltill. sem þingflokkur Samfylkingarinnar flutti þannig að það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að þessum fyrirspurnum. Menn hrökkva í baklás og í efnislegri orðræðu sem hv. þingmenn eiga við hæstv. ráðherra, þar sem spurt er um efnisatriði fyrst og síðast, þá virðist eins og hæstv. forseti þingsins sé kominn í pólitíska vörn fyrir hæstv. ráðherra. Ég hélt að hún væri alveg fær um það, eða fram að þessu hefur hún a.m.k. reynt að verja sig sjálf.