Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:23:37 (4981)

2003-03-13 20:23:37# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:23]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. Mér finnst hlutirnir alls ekki vera á öðrum endanum í þingsalnum. En eins og hér hefur komið fram hafði hv. þm. áður lagt fram fyrirspurn um sama efni og henni hafði verið svarað. Í því svari kemur m.a. fram hver eru heildarlaun þeirra einstaklinga sem þarna áttu í hlut, sem í öðru tilfellinu voru 650 þús. kr. á mánuði og hinu tilfellinu 590 þús. kr. á mánuði, auk þess að um var að ræða 13. mánuðinn í því tilfelli. Það hafa því þegar verið gefnar heilmiklar upplýsingar um þetta atriði en það er hins vegar svo að hv. þm. vildi fá frekari upplýsingar og sú fyrirspurn var mjög ítarleg, kallaði á mjög ítarleg svör. Og eins og ég fór yfir áðan, þá náðist ekki að fá þær upplýsingar á þeim tíma sem um var að ræða. Hv. þm. getur bara brosað yfir því en þannig er þetta.

Eins og ég sagði gaf starfsmannaskrifstofa fjmrn. þær upplýsingar að ekki væri haldið utan um þessa hluti þannig lagað séð að hægt væri að finna þá alla á einum stað. Og þegar spurt er um fordæmi, þá þarf að fara til allra ráðuneyta og allra undirstofnana. Þessar upplýsingar liggja einfaldlega ekki fyrir.

Ég held að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, varaforseti þingsins, hafi ekki alveg haft þingsköpin í huga þegar hann sagði að ég skyldi bara senda þingmönnum þessi svör. En samkvæmt þingsköpum, eins og hæstv. forseti hefur farið yfir, á ráðherra að senda forseta svörin en ekki þingmönnum. Það er ekki nokkur hlutur hér sem þolir ekki dagsljósið en ég get hins vegar alveg sagt að það er aldrei gert með neinni sérstakri gleði af hálfu ráðherra þegar þarf að grípa til aðgerða eins og þessara, að gera starfslokasamninga við forstjóra fyrirtækja. Það er bara ekki þannig. En stundum eru aðstæður þannig að það er besti kosturinn og þá er það yfirleitt gert.