Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:26:43 (4982)

2003-03-13 20:26:43# 128. lþ. 100.1 fundur 597. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 72/2003, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:26]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanrmn. um frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu var undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og tók hann gildi 1. júní 2002. Fullgilding samningsins kallaði á fjölmargar lagabreytingar hér á landi sem voru að hluta til gerðar með lögum nr. 76/2002, um breytingu á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, en málið var til meðferðar í utanríkismálanefnd á síðasta þingi. Eftir gildistöku þeirra laga kom í ljós að frekari lagabreytinga var þörf og er bætt úr því með þessu frumvarpi. Markmið lagabreytinganna er sem áður fyrst og fremst að veita svissneskum ríkisborgurum og lögaðilum rétt til samræmis við EES-borgara þar sem það leiðir af nýjum stofnsamningi EFTA.

Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að í frumvarpið vantaði enn breytingar á nokkrum lagaákvæðum og leggur nefndin því til að þeim verði bætt við.

Nefndin leggur einróma til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.