Breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:39:02 (4991)

2003-03-13 20:39:02# 128. lþ. 100.9 fundur 666. mál: #A breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn# (umferð á sjó) þál. 29/128, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:39]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2003, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

Meginefni þeirrar tilskipunar sem hér er verið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af fjallar um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis Evrópusambandsins fyrir umferð á sjó, jafnframt því sem felld er úr gildi tilskipun 93/75/EBE, um lágmarkskröfur fyrir skip sem flytja hættulegar eða mengandi vörur til eða frá höfnum innan bandalagsins. Gert er ráð fyrir að yfirvöld hvers aðildarríkis haldi utan um upplýsingar um skip sem flytja hættulegan eða mengandi varning. Markmið slíks eftirlits- og upplýsingakerfis með umferð skipa er að draga úr hættu á mengunarslysum og -óhöppum og draga jafnframt úr áhrifum slíkra slysa eða óhappa á umhverfi sjávar og á heilsu manna. Þá er kveðið á um auðkenningarkerfi skipa, ferðaskráningarkerfi, ráðstafanir til að draga úr hættu á óhöppum, aðstoð við skip í nauðum og samstarf milli ríkja.

Samgönguráðherra lagði fram lagafrumvarp þessa efnis í nóvember á síðasta ári og var málið afgreitt sem lög frá Alþingi 10. mars sl.

Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.