Breyting á XVII. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:42:43 (4993)

2003-03-13 20:42:43# 128. lþ. 100.11 fundur 668. mál: #A breyting á XVII. viðauka við EES-samninginn# (uppfinningar í líftækni) þál. 31/128, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:42]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2003, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

Meginmarkmið þeirrar tilskipunar sem hér er verið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af er að samræma ákvæði um einkaleyfishæfi uppfinninga á sviði líftækni en með líftækni er átt við starfsemi þar sem notaðar eru örverur, dýra- eða plöntufrumur eða frumuhlutar til að framleiða afurðir eða umbreyta þeim, kynbæta plöntur eða dýr eða breyta örverum í hagnýtum tilgangi. Í tilskipuninni eru jafnframt skýr ákvæði um að ekki megi veita einkaleyfi á aðferðum við að klóna menn eða breyta erfðaeiginleikum kynfrumna manna. Einnig er kveðið á um bann við veitingu einkaleyfis á notkun fósturvísa í hagnaðarskyni eða á öðrum uppfinningum sem stríða gegn allsherjarreglu eða siðgæði.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og þurfa nauðsynlegar lagabreytingar að hafa tekið gildi eigi síðar en 31. júlí 2003.

Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.