Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:52:07 (4996)

2003-03-13 20:52:07# 128. lþ. 100.28 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í dag fór fram umræða um stækkun raforkuvera sem tengist þessu máli einnig, álbræðslu á Grundartanga. Þar komu fram sjónarmið sem mér finnst eðlilegt að tekin séu til umræðu. Hv. formaður iðnn. hélt því fram í dag að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, stefnumarkandi ákvörðun um að gera þungaiðnað, framleiðslu á áli, að einni af meginstoðum í íslensku atvinnu- og efnahagslífi, væri til þess fallin að koma á meiri stöðugleika en við höfum búið við. Þetta sjónarmið þarf ekki að koma neinum á óvart. Formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, lýsti því yfir á nýafstöðnu þingi Framsfl. að þetta væri stefna flokksins. Hann sagði til góðs fyrir atvinnulífið ef álframleiðsla yrði rúmlega þriðjungur af umfangi efnahagsstarfseminnar í landinu. Síðan endurómaði hv. formaður iðnn., Hjálmar Árnason, þessi sjónarmið í þinginu. Hann taldi þetta styrkja undirstöður efnahagsstarfseminnar.

Staðreyndin er sú að við stefnum að því með þessu að álframleiðslan nemi 80--90 milljörðum kr. Má geta þess að verðmæti útflutnings sjávarafurða er nú á bilinu 120--130 milljarðar. Álframleiðslan stefnir í að vega allt að því eins mikið og sjávarafurðirnar.

Ég vildi vekja athygli á því að hagfræðingar hafa gert á því könnun hvort álið sé til þess fallið að stuðla að stöðugleika. Niðurstöður könnunar tveggja hagfræðinga við Háskóla Íslands benda í þveröfuga átt. Þeir gerðu athugun á sveiflum í efnahagslífinu. Þeir skoðuðu tvö skeið: Árin 1986--1987, sem voru mikil þensluár í íslensku atvinnulífi, og hins vegar árin upp úr 1990, 1992--1993 held ég hafi verið tekin til athugunar, sem var samdráttarskeið. Annars vegar var skoðað þensluskeið og hins vegar samdráttarskeið. Þeir gerðu módel og mátuðu hugsjónir Framsfl. inn í þetta módel. Niðurstaðan varð sú að ef hugsjónir Framsfl. hefðu náð fram að ganga, að gera þungaiðnað að uppistöðu í íslensku atvinnulífi og hornsteini velferðarkerfisins eins og Framsfl. kallar drauma sína um álframleiðslu, hefði sveiflan í hagkerfinu orðið enn þá meiri. Með öðrum orðum hefði samdrátturinn í efnahagskerfinu á árunum 1986--1987 orðið meiri ef álið hefði verið komið á óskastig Framsfl. Hið sama hefði gerst á samdráttarskeiðinu 1992--1993, þ.e. samdrátturinn hefði orðið enn þá meiri en ella.

Það er því röng staðhæfing hjá hv. formanni iðnn. og fulltrúa Framsfl. í þeirri nefnd að álframleiðsla sé til þess fallin að auka á stöðugleika í efnahagslífinu. Þvert á móti sýna rannsóknir hið gagnstæða. Hún dregur úr þessum stöðugleika. Niðursveiflan yrði enn meiri en ella og uppsveiflan að sama skapi. Stöðugleikinn yrði minni.

Þetta voru sjónarmið sem ég saknaði úr umræðunni í dag. Fróðlegt væri að heyra hv. formann iðnn. og fulltrúa Framsfl. hrekja þær staðhæfingar sem hagfræðingar við Háskóla Íslands hafa sett fram. Þeir hafa legið yfir gögnum og mátað hugsjónir framsóknarmanna um áliðnað sem meginstoð í efnahagskerfinu inn í efnahagsmódel og komist að þveröfugri niðurstöðu við það sem Framsfl. heldur fram.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu. Ég vil hleypa fulltrúa Framsfl. í pontu og hlýða á fyrirlestur flokksins um framtíð (Gripið fram í: Gæði álsins.) og gæði álsins, framtíð íslenska efnahagskerfisins og þær hugsjónir sem flokkurinn (Gripið fram í.) elur í brjósti.