Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:22:50 (5004)

2003-03-13 21:22:50# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:22]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta iðnn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 28/1993, um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þetta frv. er í rauninni afskaplega einfalt í uppsetningu en kann að hafa mikil áhrif og það lýtur að því að iðnrh. verði heimilt að selja allan eignarhlut ríkisins í Sementsverksmiðjunni hf.

Eins og fram hefur komið, herra forseti, á ríkið allt hlutafé í þessari verksmiðju, en rekstur hennar hefur verið afskaplega erfiður. Hún hefur verið að tapa miklu. Hér er komin á samkeppni á sementsmarkaðnum. Byrjað er að flytja inn sement sem er í mikilli samkeppni við Sementsverksmiðjuna og hefur það m.a. leitt til þess að rekstur hennar er afskaplega erfiður. Það liggur ljóst fyrir að það þarf að auka hlutafé verksmiðjunnar ef takast á að halda starfsemi hennar gangandi.

Í mjög ítarlegri umfjöllun innan nefndarinnar þar sem fjölmargir gestir komu, eins og greint er frá á þskj. 1302, kom fram afskaplega skýr vilji heimamanna til þess að halda starfseminni þarna gangandi, en ekki síður er rétt að vekja athygli á því að fulltrúi Samtaka iðnaðarins lagði þunga áherslu á mikilvægi þess að haldið yrði uppi samkeppni á sementsmarkaðnum hér. Hann varað mjög við því að Sementsverksmiðjan yrði lögð af þannig að Íslendingar yrðu algjörlega háðir innflutningi frá einum aðila á sementi.

Svo virðist sem ýmsir aðilar á verktakamarkaðnum hafi áhuga á því að eignast þennan hlut með það í huga einmitt að halda þessari samkeppni uppi. Það kom einnig fram í meðhöndlun þessa máls innan nefndarinnar að menn sjá möguleika í ýmsu í framtíðinni til að sækja fram með Sementsverksmiðjuna, m.a. í hinum miklu framkvæmdum sem eru í bígerð í landinu og tengjast álverksmiðjum, bæði fyrir austan og hugsanlega á Grundartanga. En þá er ekki síður mikilvægt það hlutverk sem Sementsverksmiðjan hefur verið að vinna að, þ.e. að nota verksmiðjuna að hluta til til förgunar á spilliefnum.

Nú er ljóst að um næstu áramót, ef ég man rétt, taka gildi lög um spilliefnagjald sem munu breyta forsendum fyrir slíkri förgun allverulega og verksmiðjan gæti átt verulega mikla möguleika á þessu sviði.

Hafandi farið yfir þetta varð það niðurstaða meiri hluta hv. iðnn. að mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt og telur meiri hlutinn að með því móti sé verið að leggja drög að því að Sementsverksmiðjan haldi starfsemi sinni áfram, sem er meginmarkmiðið með flutningi þessa frv.

Ég vil að lokum, herra forseti, vekja athygli á því að það kom fram í umræðum innan nefndarinnar að lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, nr. 62/1973, gera ráð fyrir því að flutningur á sementi út á land sé styrktur með jöfnunarsjóði og komu fram verulegar efasemdir um það með hvaða hætti hann er notaður. Jafnvel var talað um að verið væri að ríkisstyrkja innflutta sementið og mælir meiri hluti hv. iðnn. eindregið með því að þau lög verði tekin til endurskoðunar þannig að þessi sjóður a.m.k. gegni því hlutverki sem honum var ætlað, ef framkvæmdin er með öðrum hætti en til var stofnað.

Læt ég þetta svo nægja, herra forseti. Undir nál. rita hv. þingmenn Guðjón Guðmundsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Pétur H. Blöndal, Svanfríður Jónasdóttir, Árni Ragnar Árnason, Kjartan Ólafsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Hjálmar Árnason.