Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:36:32 (5012)

2003-03-13 21:36:32# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:36]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Í rauninni er ekki miklu við þetta að bæta. Réttast er þó að nefna enn einu sinni að markmiðið með frv. hefur komið skýrt fram. Menn vilja að starfsemin haldi áfram innan lands og á Akranesi, hjá þessu mæta fyrirtæki. Menn fóru nokkuð vel yfir möguleikana á að nota verksmiðjuna auk sementsframleiðslunnar til förgunar eins og ég nefndi í framsöguræðu minni. Það breytir þó ekki því að veruleikinn er að hér er hörð samkeppni.

Hv. þm. talar um ,,dumping-verð``. Ég geri það ekki að mínum orðum en það mál er til athugunar hjá ESA og ekki komin niðurstaða úr því. Hver svo sem niðurstaðan verður er þetta veruleikinn eins og hann er í dag. Hér ríkir hin harða samkeppni og menn geta rétt ímyndað sér hver staðan væri ef Sementsverksmiðjan yrði lögð af, hver staðan væri þá hér á sementsmarkaði. Þá værum við algjörlega háð innflutningi með óverulegri samkeppni. Hagsmunaaðilar í greininni, verktakabransa á því sviði, vilja forðast það og hið sama kom mjög skýrt fram hjá framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.

Ekki þarf að efast um vilja Skagamanna til að halda þessari fornfrægu verksmiðju gangandi, einu af auðkennum Akraneskaupstaðar. En markmiðið með þessu frv. er að styrkja stoðir Sementsverksmiðjunnar þannig að hún geti haldið áfram að framleiða vöru sína, farið að græða í stað þess að tapa. Menn vilja sækja fram.