Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:16:00 (5015)

2003-03-13 22:16:00# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:16]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Við erum komin að lokum þessa máls. Það er svona um það bil búið að ganga frá því að selja Sementsverksmiðju ríkisins og eins og hæstv. iðnrh. lýsti í ræðu sinni er mjög brýnt að koma þeirri sölu á hið fyrsta að mati hæstv. ríkisstjórnar og iðnrh.

En er það nú svo brýnt, herra forseti, að ekki hefði mátt bíða í tvo daga eða svo, ganga frá frv. og afgreiða það hér á þingi? Það virðist ljóst að mikill meiri hluti sé fyrir því á þinginu að afgreiða þetta mál. Ég tel því að hæstv. ráðherra geti verið nokkuð viss um að það verði samþykkt. En hefði ekki mátt bíða með að auglýsa verksmiðjuna fram að sunnudagsblaði Morgunblaðsins í stað þess að auglýsa hana með fyrirvara núna? Mér finnst gert lítið úr Alþingi með þessari auglýsingu. Með henni er verið að segja: ,,Það er ég sem ræð.`` Það sama má segja um þá gjörð, ef rétt er, að miklar sprengingar hafi verið þegar í dag austur á landi í Dimmugljúfrum. Ég vil því minna á að er ekki búið að skrifa undir samningana þó að við séum búin að ganga frá lögum á Alþingi. Ég tel að okkur beri að virða þau formsatriði sem eru háð samþykki Alþingis og samningum.