Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:18:14 (5016)

2003-03-13 22:18:14# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er ekki hafið yfir gagnrýni að auglýsa verksmiðjuna áður en lögin hafa verið samþykkt. Hins vegar var það gert með fyrirvara. Auk þess er þetta einungis heimild til ráðherra sem kveðið er á um í frv. þannig að það er ekki eins og þetta sé allt gengið í gegn. Það er ekkert um það bil búið að selja eins og hv. þm. sagði því að í fyrsta lagi á eftir að ná samningum og það getur orðið þrautin þyngri. Þess vegna er þetta bara í ákveðnum farvegi.

Það er rétt að það var í og með út af því að ég var nokkuð viss um að frv. yrði samþykkt miðað við undirtektir við 1. umr. að þetta var gert. En það er ekki í mínum huga nein ögrun í því fólgin og alls ekki verið að gera lítið úr Alþingi. Það er fyrst og fremst verið að reyna að bjarga verðmætum og bregðast við erfiðri stöðu í sambandi við rekstur þessarar verksmiðju. Eins og ég sagði áðan var skoðun mín sú og mat að betra væri að vinna þetta mál hratt og það lét ég koma fram strax í 1. umr.