Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:19:48 (5017)

2003-03-13 22:19:48# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:19]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra telur að ekki hafi verið sjálfgefið að auglýsa Sementsverksmiðjuna með fyrirvara. En ég lít svo á að þó að mikið liggi á hafi verið og sé í alla staði heppilegra að geyma slíkar auglýsingar þangað til búið er að ganga frá lagasetningu á Alþingi. Ég tel að það sé að nokkru leyti verið að gera lítið úr störfum okkar og þeirri löggjöf sem hér þarf að samþykkja áður en verksmiðjan verður seld. Þó að þetta sé brátt tel ég að tveir dagar til eða frá hefðu ekki skipt öllu máli. Þá hefði verið allt annað yfirbragð yfir þessari gjörð hæstv. iðnrh. og a.m.k. látið líta svo út að virðing væri borin fyrir þeim störfum sem hér eru unnin.