Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:23:05 (5019)

2003-03-13 22:23:05# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var alls ekki þannig að ég væri að meina að það gæti ekki verið flókið mál að koma starfsemi og málefnum verksmiðjunnar í betra horf. Það sem ég meinti var að frv. sem hér er til umfjöllunar væri ekki flókið, en það snýst um það eingöngu að heimila iðnrh. að selja verksmiðjuna. Það er ekki flókið. Hins vegar er margt flókið sem snýr að málinu í heild og það á sjálfsagt eftir að koma betur í ljós.

Ég ætlaði ekki að fljóta sofandi að feigðarósi. Það var alls ekki meiningin. Ef hv. þm. vill þakka sér það að gripið var til aðgerða, og hluti af þeim aðgerðum er að leggja fram þetta frv., þá er það bara allt í lagi, þá skulum við bara hafa það þannig að það sé allt af því að hann flutti þáltill. En við höfum verið að fjalla um þessi mál í ráðuneytinu í allmarga mánuði. Við bundum ákveðnar vonir við eða réttara sagt töldum að það væri mikilvægt að fá niðurstöðu frá samkeppnisyfirvöldum hvað varðaði mikilvæga þætti þeirra viðskipta sem hér eiga sér stað með sement áður en við færum út í svo róttæka aðgerð sem þá að óska eftir heimild til að selja verksmiðjuna.

Miðað við það að við höfum ekki enn þá fengið endanleg svör --- þau gætu komið eftir sex mánuði, ár eða hvað má láta sér detta í hug miðað við fyrri reynslu --- þá var ekki til setunnar boðið lengur. Þess vegna er þetta frv. flutt og það er einlæg von mín að það sé ekki of seint þannig að koma megi þessum málum í betri farveg nú.