Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:54:06 (5024)

2003-03-13 22:54:06# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins er hér til 2. umr. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn., hefur gert grein fyrir því nefndaráliti sem hann sem minni hluti nefndarinnar stendur fyrir.

Í nefndarálitinu er einmitt undirstrikuð sú ríka áhersla sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum á það að standa vörð um Sementsverksmiðjuna, um framleiðslu hennar og framtíð og að þær aðgerðir sem gripið verður til vegna stöðu hennar, reksturs og framtíðarmöguleika eigi að mótast af þeirri afstöðu fyrst og fremst að tryggja framtíð hennar og starfsemi.

Herra forseti. Það verður að segjast í upphafi máls míns að frammistaða hæstv. iðnrh. sem ábyrgðarmanns verksmiðjunnar fyrir hönd ríkissjóðs, eigandans, frammistaða hæstv. ráðherra í málefnum verksmiðjunnar hefur verið afar slæleg. Það hefur verið ljóst nú um nokkurn tíma að verksmiðjan á í rekstrarerfiðleikum án þess að á þeim hafi verið tekið á nokkurn hátt af ábyrgð sem eiganda ber að taka á starfsemi á hans vegum. Þetta er kannski meginvandi Sementsverksmiðjunnar. Hann hefur einmitt verið sá hversu illa eigandinn hefur haldið á málum.

Það þótti gott hér á árum áður að geta beitt Sementsverksmiðjunni, verðlagningu á sementi, til þess að hafa áhrif á verðlag, á vísitölu kaupgjalds og verðlags, og í gegnum árin var þess ekki alltaf gætt að verksmiðjan fengi að njóta arðs eða afraksturs af framleiðslu sinni og sölu og byggja upp eiginfjárstöðu eins og eðlilegt hefði verið ef eigandinn hefði sýnt fyrirtækinu tilhlýðilega virðingu.

Það hefur áður komið fram hér í umræðum að ríkið hafi í sjálfu sér aldrei lagt neitt til nema lán í upphafi og að lítið hafi verið um framlög til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Þau eru ekki mörg fyrirtækin hér á landi sem eiga sér jafnlanga sögu og Sementsverksmiðjan sem hafa ekki þurft að fá styrkingu eigin fjár eftir þau boðaföll sem íslenskur iðnaður hefur þurft að þola á undanförnum árum og áratugum. En skeytingarleysi ríkisvaldsins gagnvart þessari verksmiðju hefur verið svo algert að þar hefur verið látið reka á reiðanum þar til staðan var orðin svo erfið að illgerlegt er að sjá fram úr henni nema þá með því að beita örþrifaráðum eins og ríkisvaldið er hér að gera, þ.e. að losa sig bara við verksmiðjuna.

Við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson fórum upp á Akranes og hittum þar starfsfólk Sementsverksmiðjunnar sama dag og frv. um sölu verksmiðjunnar var lagt fram til að heyra hljóðið í þeim, hvernig þeim litist á. Það var sér sorglegt að heyra að margir þeirra sem við áttum þar tal við töldu að í stöðunni væri illskásti möguleikinn að selja verksmiðjuna, staðan og umhyggjan fyrir henni gæti varla versnað. Þetta eru dapurleg rök en þau verður í sjálfu sér að virða. Það er á þessum forsendum sem salan nú eða heimild til sölu er keyrð fram.

[23:00]

Ég hefði talið æskilegra, herra forseti, að farin hefði verið leið okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem lögð var til við fjárlagaafgreiðslu í desember, þ.e. að gripið yrði til þess að styrkja eiginfjárstöðu verksmiðjunnar með því að auka hlutafé eins og gert er almennt í fyrirtækjum sem menn ætla góða framtíð og þarf að styrkja eiginfjárstöðu hjá. Það lögðum við til. Að vísu var á skyndifundi rétt fyrir lokaafgreiðslu fjárlaganna kallað til fundar í fjárln. og þá var komið fram með tillögur sem meiri hlutinn vildi standa að, að styrkja eiginfjárstöðu verksmiðjunnar með því að selja eignir sem hún átti í Reykjavík og þurfti ekki á að halda eða gat látið af hendi og beita þeim aðferðum til þess að styrkja eiginfjárstöðu verksmiðjunnar. Maður skyldi halda að þá hefði verið gripið til þess af dugnaði og krafti að ganga til þeirra aðgerða sem Alþingi var búið að samþykkja því að öllum mátti vera ljóst að það var ekki svo mikill tími eftir til að taka á rekstrarvanda verksmiðjunnar og þótti mörgum seinagangurinn ærinn til þess tíma. Við skyldum því halda að gripið hefði verið af röskleika til þess að bjóða þá falar þær eignir sem búið var að heimila að seldar yrðu og verja andvirðinu til að styrkja verksmiðjuna. En því miður sást ekki bóla á neinum aðgerðum í þá veru. Málið var dregið, því var stungið undir stól, sest var á málið og lagst á það og áfram stóð verksmiðjan í þeim vanda sem hún var í og sá vandi jókst. Það skýtur því nokkuð skökku við þann seinagang sem var af hálfu iðnrn. að framkvæma samþykktir Alþingis varðandi styrkingu eiginfjárstöðu verksmiðjunnar að nú, þegar umræðan bara um það að fá heimild til sölu kemur inn á Alþingi á síðustu dögum þingsins fyrir þinglok og á síðustu dögum núv. ríkisstjórnar, þegar málið er ekki einu sinni komið til 2. umr., er enn þá í þingnefnd og bara örfáir dagar síðan mælt var fyrir því á Alþingi, þá skuli vera komin auglýsing um sölu verksmiðjunnar.

Betra hefði verið ef sýndur hefði verið sá dugnaður til að fylgja eftir samþykktum Alþingis í desember um að selja þær eignir sem heimilað var að selja til að styrkja eiginfjárstöðuna. Þessi vinnubrögð, herra forseti, sýna kannski í hnotskurn hug hæstv. iðnrh. og ríkisvaldsins til þessarar verksmiðju og til starfsemi hennar. Þeim er svo brátt að selja hana og losa sig við hana að þeir geta ekki einu sinni beðið eftir því að frv. fái þinglega meðferð.

Ég held, virðulegi forseti, að slík vinnubrögð og slík afstaða segi meira en mörg orð. Hæstv. iðnrh. sagði á síðasta ári eitthvað í þá veruna að verksmiðjan yrði bara að fara að klára sig sjálf, við værum komin í samkeppnisumhverfi og ríkið gæti ekkert verið að hlaupa undir bagga með henni. (Iðnrh.: Ég hef aldrei sagt það.) Hún yrði að klára sig sjálf. Hún væri komin í samkeppnisumhverfi. Ég get flett þessu upp fyrir hæstv. ráðherra en það var eitthvað í þá veruna. Ég get flett upp á þeim orðum sem voru höfð eftir hæstv. ráðherra í blaðaviðtali og lutu að þessu máli.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hefði talið að það væri til heilla fyrir verksmiðjunna að beðið yrði til ríkisstjórnarskipta þannig að þeir sem þá tækju á málum eftir að skipt hefði verið um ríkisstjórn gætu komið að málinu frekar af meiri heilindum gagnvart verksmiðjunni heldur en hér er á ferðinni.

Sú auglýsing sem við erum með í höndunum, virðulegur forseti, um ekki aðeins söluheimild heldur er líka texti um ýmis skilyrði sem sett eru varðandi söluna meðan málið er enn til umfjöllunar í þinginu, sýnir í hnotskurn, herra forseti, þann hug og þau heilindi sem að baki þessum gjörningum öllum standa og er dapurlegt að verða vitni að.

Strax á fyrstu dögum þingsins sl. haust lögðum við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, fram tillögur til að taka á málum Sementsverksmiðjunnar. Við lögðum fram tillögu um að þá þegar yrði gerð úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi en þá hafði um nokkurt skeið verið flutt inn, og er enn, sement af dönskum sementsrisa og selt hér á meintu undirverði. Við lögum til að á þessu máli yrði tekið en menn sætu ekki með hendur í skauti í skjóli þess að málið væri í einhverju óskilgreindu ferli hjá samkeppnisyfirvöldum hérlendis og erlendis. Við lögðum til að stjórnvöld tækju á þeim málum af festu og ef reyndin yrði sú að sá málarekstur sem þá var hafinn tæki of langan tíma þannig að það yrði verksmiðjunni erfitt að bera þá óvissu, þá yrði gripið til aðgerða til þess að styrkja og styðja verksmiðjuna á meðan. Við lögðum þetta til, herra forseti, og sú tillaga kom inn til þingsins strax á fyrstu dögum þings í haust. Maður skyldi halda að ef vilji hefði verið eða áhugi til þess í raun að taka á málum Sementsverksmiðjunnar af heilindum, þá hefði þegar í stað verið hafist handa við að vinna á grundvelli þeirra tillagna.

Hin tillagan sem við fluttum, virðulegi forseti, fjallaði um að gera úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar, m.a. með tilliti til hlutverks hennar við förgun spilliefna. Þar er um að ræða möguleika til þess að nýta orkurík úrgangsefni, olíu, plast, gúmmíhjólbarða og annan orkuríkan úrgang sem okkur ber að eyða og við höfum samþykkt lög sem kveða á um allverulegt skilagjald á slíkum vörum. Nú þegar er brennt orkuríkum úrgangsolíum í verksmiðjunni og mikill áhugi hefur verið á að geta fengið tæki og búnað til þess að brenna öðrum orkuríkum úrgangsefnum eins og gúmmíi, dekkjum, hjólbörðum og plasti. En að sjálfsögðu kosta allar slíkar aðgerðir peninga, bæði þróunarstarf og breytingar. Og ef eigandinn hefði viljað koma að þessu máli, ef hann hefði viljað koma að þessari starfsemi af heilindum og áhuga á því að verksmiðjan gæti starfað áfram einmitt á þessum forsendum jafnframt, þá hefði eigandinn beitt sér fyrir því af afli og myndugleik. En það hefur ekkert gerst af hálfu eigandans í þá veruna.

Það væri kannski fróðlegt ef hæstv. iðnrh. gæti upplýst hvort gerðir hafi verið einhverjir aðrir samningar um förgun á orkuríkum úrgangsefnum sem okkur ber nú að eyða við aðra aðila en Sementsverksmiðjuna. Eða hvað er í bígerð í að framfylgja þeim lögum sem við höfum samþykkt um förgunarskyldu á þessum efnum, hjólbörðum, plasti og þess háttar og sem við erum farin að innheimta gjald fyrir? Hvað hefur framkvæmdarvaldið gert til að tryggja það að fylgja þessum lögum eftir? Er búið að gera samninga við einhverja aðila um slíka förgun? Ég hefði viljað fá svar við því hér, herra forseti.

Ef virkilegur vilji eigandans, ríkisins, hefði verið fyrir hendi til þess að standa að baki verksmiðjunni og styrkja stöðu hennar og tryggja rekstrarlega framtíð hennar, þá hefði verið gengið mynduglega til verks í að kanna möguleika hennar, einmitt í að nýta orkurík úrgangsefni bæði til þess að farga þeim og styrkja rekstrarstöðu og verkefnastöðu fyrirtækisins. Á því hefur ekkert bólað, fullkomið skeytingarleysi af hálfu eigandans sem hæstv. iðnrh. fer með umboð fyrir.

Það er ekkert smámál þegar tekið er að rugga fyrirtæki og tilveru fyrirtækis eins og Sementsverksmiðjunnar enda fara sögur og hugmyndir fljótt á kreik. Í gærkvöldi var í sjónvarpinu viðtal við menn, t.d. við bæjarstjórann á Akranesi út af hugmyndum sem þar höfðu komið upp og til tals í bænum af einhverjum aðilum um að nú væri upplagt tækifæri að rífa niður verksmiðjuna og ef grundvöllur væri fyrir því að vera með sementsframleiðslu, þá skyldi byggja hana upp annars staðar.

Það er alveg ljóst að þegar slíku fyrirtæki, sem ekki er betur í stakk búið til að mæta nýju umhverfi en Sementsverksmiðjan er nú, er ruggað í þessari aðstöðu þá er ekki alltaf að maður ráði framvindunni. Þess vegna er sú aðgerð sem hér er lagt upp með og á þann hátt sem gert er afar óábyrg. Vægast sagt afar óábyrg. Ljóst er að Ísland er það lítill markaður og stendur svo fjarri framleiðslu í öðrum löndum að ekki munu margir verða til þess að flytja sement hingað og keppa á sementsmarkaði hér, enda hefur hinn danski sementsrisi sem flytur inn sement lýst því yfir að hann líti á Ísland sem sinn heimamarkað, það sé nokkur fórnarkostnaður sem verði að taka á sig meðan verið er að leggja innlenda framleiðslu niður, en á eftir þegar það er búið, hafi tilganginum verið náð og þetta sé hluti af heimamarkaði hans. Þetta kom fram í blaðaviðtali í jósku blaði, þannig að sá vilji er ljós.

Vel má vera að það geti verið rétt að Sementsverksmiðjan fái aðra eignaraðila til framtíðar en þá eiga slík eignaskipti að eiga sér stað þegar allt hefur verið gert sem hægt er að gera til þess að tryggja og treysta stöðu verksmiðjunnar, tryggja henni framtíð og gera hana betur tilbúna til þess að fara í hendur nýrra eigenda. Það að selja verksmiðjuna undir núverandi kringumstæðum, þegar á engum þáttum varðandi framleiðslu hennar eða rekstur hefur verið tekið, er ábyrgðarleysi af hálfu eigandans.

[23:15]

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að áður en þessi söluheimild er afgreidd hér á þingi verði sú úttekt framkvæmd sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson höfum óskað eftir og lagt fram tillögur um á Alþingi, bæði hvað varðar framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar við förgun orkuríkra úrgangsefna og einnig hvað varðar úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi þannig að sú deila sem nú er uppi um verðlagningu á innfluttu sementi gagnvart innlendu verði leyst og séð til botns í hvað þar getur verið á ferðinni og að söluheimildir verði látnar bíða á meðan. Það er fráleitt að setja Sementsverksmiðjuna á sölu við þessar óvissu kringumstæður. Það er fráleitt gagnvart þeirri framleiðslu sem þar er stunduð og verksmiðjan sér um. Þetta er innlend framleiðsla úr innlendu hráefni sem þarna á sér stað og þetta er mikilvægt atvinnufyrirtæki, ekki aðeins á Akranesi heldur fyrir landið allt. Þess vegna á að tryggja sem best stöðu verksmiðjunnar og komi til sölu verði hún seld með góða framtíðarmöguleika og ljósa. Hún verði ekki seld í því óvissuástandi sem nú er. Eigandanum ber að tryggja verksmiðjunni framtíð áður en hún er sett á svona uppboðsmarkað ef það þykir fýsilegt. Það verður aldrei nema einn aðili hér með meginþungann í sementssölu. Hér verður því aldrei í raun virk samkeppni. Það verður alltaf að meira eða minna leyti fákeppni eða einokun í þessu og þá er líka eins gott að ríkisvaldið sé ábyrgt fyrir því að gæðum framleiðslunnar sé haldið og að verði sé haldið hóflegu því þó að markaðurinn sé í raun opinn og sé opinn fyrir samkeppninni, þá er landfræðileg staða Íslands þannig að erfitt getur verið að mynda raunhæft og virkt samkeppnisumhverfi. Það er bara staðreynd hversu jákvæð sem samkeppni annars gæti verið fyrir sölu á þessari vöru.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu og vitna aftur til þessara bráðræðisaðgerða af hálfu iðnrn. í að auglýsa eignarhlut ríkisins til sölu í Sementsverksmiðjunni áður en búið er að fjalla um málin á Alþingi, áður en búið er að taka út og tryggja framtíðarstöðu verksmiðjunnar eins og kostur er. Það hefði verið óskandi að dugnaður og bráðræði hæstv. iðnrh. hefði nýst betur við að tryggja verksmiðjunni framgang fyrr á síðasta ári eða við að framfylgja samþykkt Alþingis sem gerð var í desember sl. og hefði átt að vera búið að framfylgja ef eðlilegt hefði verið. Það hefði verið betra.

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi flutt rök, sterk rök fyrir því að skoða beri þessi mál betur, kanna möguleika á framtíðarhlutverki og stöðu verksmiðjunnar og reyna að tryggja hana sem allra best áður en hún er boðin til sölu ef það þykir fýsilegur kostur og þess vegna eigi Alþingi ekki að afgreiða þetta mál að svo stöddu.