Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 23:25:02 (5027)

2003-03-13 23:25:02# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[23:25]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri það gjarnan þegar mér leiðist á löngum þingfundum að fara í andsvar við hv. þm. og leggja fyrir hann spurningar. Og það bregst ekki að hv. þm. svarar aldrei spurningum. Hann kemur alltaf með aðrar spurningar. Þetta er svona taktík hjá honum og ég hef eiginlega alltaf jafngaman af þessu. Ég spurði hv. þm. einfaldra spurninga: Hvað átti hann við með því að reka þyrfti fyrirtækið þangað til ný skilningsrík ríkisstjórn hefði tekið til starfa, ríkisstjórn með umhyggju fyrir Sementsverksmiðjunni, hvað mundi hann gera ef hann væri í ríkisstjórn í dag og hvað ætlar hann að gera ef hann verður í ríkisstjórn eftir kosningar til að bjarga þessu fyrirtæki? Og að vanda svaraði hv. þm. engu. Hann svarar aldrei spurningum í andsvörum og ég skora á hv. þm. að bregða nú út af vana sínum og svara einu sinni og svara þessum einföldu spurningum.

Hann talaði um hug eigandans á undanförnum árum, þetta er náttúrlega bara klisjudella. Hann vitnar í starfsmenn sem sögðu að staða fyrirtækisins mundi ekki versna með nýjum eiganda, og ég spyr hv. þm. sem hefur mikið verið að atast í starfsmönnum á undanförnum mánuðum og telur sig sérstakan talsmann þeirra: Fyrst starfsmenn sögðu að þetta mundi batna með nýjum eigendum, styður hann þá ekki þetta frv.? Styður hann ekki starfsmennina í því sem þeir vilja, að fá nýjan eiganda að fyrirtækinu? Ég treysti á að svo verði og bið hann að svara þeirri spurningu líka en það er kannski fullmikið að ætlast til að hann svari tveimur.

Síðan talaði hv. þm. um hvernig eigi að ná í bætur með samkeppnislögum og úrskurði og slíku. Ég verð að segja eftir að hafa fylgst mjög með þessu máli undanfarin ár að ég hef bara enga trú á þessu samkeppnisapparati okkar. Það er búið að taka fleiri mánuði og fleiri ár að fá niðurstöðu, bæði hjá Samkeppnisstofnun á Íslandi og samkeppnisbixinu í Brussel og mér sýnist bara á öllu að þarna sé ómögulegt að fá neina niðurstöðu. Ég hef því enga trú á að hún verði í þeim dúr að sóttar verði háar upphæðir í skaðabætur af danskinum.