Svar við fyrirspurn um fæðingarorlof

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 10:33:32 (5068)

2003-03-14 10:33:32# 128. lþ. 101.91 fundur 508#B svar við fyrirspurn um fæðingarorlof# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 1127 liggur fyrir svar mitt og ég hef ósköp litlu við það að bæta. Þetta mál er til meðferðar í félmrn. Það er talsvert umfangsmikið. Það varðar kjarasamningsbundna hagsmuni aðila á vinnumarkaði. Tilgangur fæðingarorlofslaganna var að réttur beggja kynja skyldi vera jafn, og sami réttur á öllum vinnumarkaði. Ríkisstarfsmenn höfðu samið sér betri rétt og hafa haft betri rétt en gilti á almennum vinnumarkaði.

Það þarf að skoða fordæmi, dóma og forsendur þessarar lagasetningar. Fæðingar- og foreldraorlofið var, eins og það er sett fram í lögunum, hluti af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og er mikil réttarbót fyrir alla foreldra, ekki síst feður, og aðila hins almenna vinnumarkaðar. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt að ræða líka við aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd þessa verkefnis.

Það er heldur ekki alveg ljóst með afturvirknina því að í fæðingarorlofslögunum er kærufrestur þrír mánuðir, og kæra fyrnist eftir þrjá mánuði. Það er því lögfræðilegt úrlausnarefni með afturvirknina. Þetta hefur að sjálfsögðu verulegan kostnaðarauka fyrir Fæðingarorlofssjóð og íþyngir honum. Það þarf að skoða og meta tæknilegar útfærslur við greiðslur og framkvæmd. Við þessa aðila þarf að ræða og ég mun leggja það til við Tryggingastofnun að hún greiði með sama hætti og verið hefur í næstu framtíð, þ.e. þar til niðurstaða er fengin í málið.