Ábyrgðasjóður launa

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:20:10 (5079)

2003-03-14 11:20:10# 128. lþ. 101.15 fundur 649. mál: #A Ábyrgðasjóður launa# (heildarlög, EES-reglur) frv. 88/2003, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:20]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um Ábyrgðasjóð launa.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Gylfa Kristinsson og Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti.

Umsögn um málið barst frá Alþýðusambandi Íslands.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Helstu nýmæli sem frumvarpið felur í sér eru að lagt er til að Ábyrgðasjóður launa taki á sig ábyrgð á vangreiddum iðgjöldum sem nemi allt að 4% af iðgjaldsstofni á grundvelli samnings um viðbótarlífeyrissparnað og samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Lögð er til hækkun á hámarksábyrgð sjóðsins vegna krafna launamanna og er gert ráð fyrir að ráðherra geti ákveðið viðmiðunarfjárhæðina með reglugerð til eins árs í senn. Þá verður ábyrgð sjóðsins vegna orlofslauna bundin hámarki. Aðrar helstu breytingar frá gildandi lögum eru að kröfuhafi hafi meira val en áður um aðferðir við atvinnuleit og að önnur atriði en regluleg skráning hjá opinberri vinnumiðlun komi til greina við mat á því hvort uppfylltar séu kröfur um virka atvinnuleit. Tekin eru af tvímæli um að ábyrgð á bótum vegna líkamstjóns sem starfsmenn verða fyrir í vinnu sinni komi aðeins til álita þegar tryggingar vinnuveitanda taka ekki til bótakröfu starfsmannsins. Þá eru lagðar til breytingar á reglum um ábyrgðarundanþágur vegna tengsla kröfuhafa við eigendur eða forsvarsmenn hins gjaldþrota vinnuveitanda. Loks eru lagðar til ýmsar breytingar á stjórnsýslu Ábyrgðasjóðs launa.

Nefndin telur þær breytingar sem lagðar eru til á löggjöfinni vera í heild til verulegra bóta. Við athugun nefndarinnar á málinu kom hins vegar í ljós að ákvæði 23. gr. frumvarpsins um gjaldtöku stangast á við 77. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt með 15. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, og leggur nefndin því til breytingar á því ákvæði. Lagt er til að álagningarhlutfallið verði hið sama og það er í dag eða 0,04% af gjaldstofni. Komi í ljós að tekjur sjóðsins nægi ekki til greiðslu skuldbindinga hans verður að breyta álagningarhlutfallinu með lögum á sama hátt og öðrum sköttum. Til samræmis við það er lagt til að heimild ráðherra í 3. mgr. 23. gr. til að hækka gjaldhlutfallið í sérstökum tilfellum falli brott. Loks eru lagðar til smávægilegar lagfæringar á 3. mgr. 22. gr. til samræmis við framangreindar breytingar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 22. gr. Í stað 1. og 2. málsl. 3. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórn sjóðsins skal fyrir lok september ár hvert gera ráðherra grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins og áætlun um þróun útgjalda.

2. Við 23. gr.

a. 2. mgr. orðist svo:

Ábyrgðargjaldið skal vera 0,04% af gjaldstofni.

b. 3. málsl. 3. mgr. falli brott.

Undir nál. rita hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Magnús Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Drífa Hjartardóttir og Jónína Bjartmarz.