Ábyrgðasjóður launa

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:24:23 (5080)

2003-03-14 11:24:23# 128. lþ. 101.15 fundur 649. mál: #A Ábyrgðasjóður launa# (heildarlög, EES-reglur) frv. 88/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:24]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um Ábyrgðasjóð launa og hér hefur verið mælt fyrir nál. frá hv. félmn. sem ég hef ritað undir. Það er sameiginlegt nál. frá allri nefndinni. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál sem tryggir réttindi launafólks sem verður fyrir því að vinnuveitendur þess geta ekki greitt því umsamin laun.

Það sem ég hefði viljað gera aðeins að umtalsefni er það hvernig staðið er að svona lagasetningu hér í þinginu. Þetta stóra frv., sem er mikið að vöxtum, einar 28 greinar, allviðamiklar hver og ein, kemur inn í þingið í síðustu viku, bara nokkrum dögum fyrir þinglok. Þetta er mikil lagasetning, heildarlög um Ábyrgðasjóð launa, og vissulega hefði verið full ástæða til að hafa betri tíma til að vinna þetta mál, enda kom í ljós nú á síðustu klukkustundunum þegar við vorum að skoða frv. að í því voru veigamiklir gallar sem nefndinni tókst þó að forða frá að yrðu að lögum.

En í ljós kom, þó svo að frv. væri búið að vera í mikilli vinnslu áður en það kom inn í þingið, að í því var ákvæði sem stangaðist á við stjórnarskrána, stangaðist á við 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Auðvitað er þetta skólabókardæmi um það hvernig farið getur þegar mál koma svona seint inn í þingið og nefndirnar hafa ekki tök á því að vinna mál almennilega, fara almennilega yfir málin eins og nefndunum ber auðvitað að gera og eins og við höfum gert almennt með þau þingmál sem hafa komið inn í nefndirnar. Við höfum haft tök á því að fara vel yfir hverja grein og kalla til ýmsa aðila. Auðvitað voru kallaðir til gestir vegna málsins en það var þó varla meira heldur en hægt var að komast af með, en vissulega hefði þurft að senda svona mál til umsagnar og fá umsagnaraðila til að gefa álit sitt á svona stóru frumvarpi.

Þar sem málið kom svona seint inn í þingið voru engin tök á því að kalla eftir umsögnum um það, en vegna þess hversu brýnt og mikilvægt málið er sameinaðist nefndin um að við skyldum afgreiða það þó að það þyrfti að fara svona hratt yfir sögu.

En ég vil bara, herra forseti, vara við því að svona vinnubrögðum verði beitt hér í þinginu. Þetta kallar á að gerð verði mistök, sem þó var komið í veg fyrir að þessu sinni, en engu að síður er mikilvægt að nefndirnar vandi vinnubrögð sín og ríkisstjórnin, hver sem hún er hverju sinni, sjái til þess að mikilvæg mál sem á að afgreiða komi nógu snemma inn í nefndirnar þannig að hægt sé að vinna málin sómasamlega. Það er algjört grundvallaratriði þegar um svona stóra lagabálka er að ræða eins og Ábyrgðasjóð launa.