Virðisaukaskattur

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:34:22 (5086)

2003-03-14 11:34:22# 128. lþ. 101.19 fundur 669. mál: #A virðisaukaskattur# (hafnir, hópferðabifreiðar) frv. 77/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur mælt fyrir, kveður m.a. á um virðisaukaskattsskyldu hafna í eigu sveitarfélaga og vísar þar til að forsendan fyrir því að þetta ákvæði komi til framkvæmda sé að frv. til nýrra hafnalaga, eins og það liggur fyrir í þinginu, verði samþykkt óbreytt hvað þetta ákvæði varðar, þ.e. að heimila hlutafélagavæðingu hafna.

Ég legg áherslu á að það er í sjálfu sér ekki hægt að ræða þetta mál efnislega eða afgreiða það án tengsla við afgreiðslu frv. til hafnalaga. Ég vil lýsa því strax sem skoðun minni að ég tel að það sé röng nálgun að breyta hafnalögunum með þeim hætti að heimila hlutafélagavæðingu þeirra og fara að reka hafnir vítt og breitt um landið sem fyrirtæki í samkeppnisrekstri, sem er jú forsendan fyrir því að þær verði virðisaukaskattsskyldar eins og hér er verið að leggja til. Ég tel að með þeirri ákvörðun yrði tilverugrundvelli hafna víða um land raskað eða þær settar í uppnám. Ég tel að hafnirnar vítt og breitt um landið séu þjónustumannvirki en ekki fyrirtæki í samkeppnisrekstri.

Ég vildi vekja athygli á því, herra forseti, að þetta ákvæði frv. sem lýtur að virðisaukaskattsskyldu hafna er háð því að frv. til hafnalaga, sem mjög er umdeilt, komi fram. Því er eðlilegt að þetta mál sé rætt í tengslum við það frv.