Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:39:08 (5088)

2003-03-14 11:39:08# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:39]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta samgn. um frv. til hafnalaga.

Nefndin fjallaði um málið og fékk marga aðila á fund til sín.

Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi með þó nokkrum breytingum en það hafði þá verið sent til umsagnar fjölmargra aðila.

Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um hafnir sem fela í sér grundvallarbreytingar á starfsemi hafna í landinu. Þær helstu eru að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra. Höfnum verði gefinn kostur á að velja sér rekstrarform, þar með talið hlutafélagaform, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og dregið verði úr ríkisafskiptum og ríkisstyrkjum. Ein meginforsenda frumvarpsins er að rekstur hafna verði virðisaukaskattsskyldur en því er ætlað að vega upp á móti minni ríkisstyrkjum, ásamt því að gjaldtaka verður gefin frjáls. Fyrir þinginu liggur frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á virðisaukaskattslögum sem tryggir framgang þessa þáttar.

Frumvarpið er að stofni til afrakstur sérstakrar hafnalaganefndar sem samgönguráðherra skipaði 9. desember 1999. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar hafna í landinu og fulltrúi notenda hafna, auk þess sem með henni störfuðu bæði fulltrúar samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar. Ítarlega var fjallað um málið í samgöngunefnd á síðasta þingi og margar breytingar lagðar fram sem nú hafa skilað sér inn í frumvarpið. Í sumar var svo skipaður sérstakur vinnuhópur til að fara yfir frumvarpið og sætta sjónarmið. Fullyrða má að það hafi nú tekist enda mælir Hafnasamband sveitarfélaga með samþykkt frumvarpsins.

Ljóst er að frumvarpið snertir veigamikla hagsmuni margra byggðarlaga í landinu og því mikilvægt að vel takist til við lagasmíðina. Það er álit meiri hlutans að frumvarpið sé nú sem best verði á kosið og ljóst að ekki verður búið við óbreytt lög áfram.

Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn afar brýnt að frumvarpið verði að lögum á þessu þingi og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Herra forseti. Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en aðrir sem undirrita nál. eru sá er hér stendur, hv. þm. Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Árni R. Árnason.