Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:42:12 (5089)

2003-03-14 11:42:12# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. 1. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:42]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. formanni samgn., Guðmundi Hallvarðssyni, ræðum við hér frv. til nýrra hafnalaga sem reyndar er lagt fram öðru sinni. Það er svo til sama frv. og kom fyrir þingið fyrir einu ári eða svo með örlitlum breytingum. Þetta frv. hefur því fengið talsvert ítarlega meðferð hér á hinu háa Alþingi enda liggja fyrir margar umsagnir um málið sem ég mun gera talsverða grein fyrir hér á eftir.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að gera grein fyrir áliti 1. minni hluta samgn., en ásamt þeim sem hér stendur skrifar undir það álit hv. þm. Kristján L. Möller. Hér á eftir mun síðan hv. þm. Jón Bjarnason gera grein fyrir afstöðu sinni en það er ekki langt á milli okkar í þessu tiltekna máli.

Virðulegi forseti. Í nál. 1. minni hluta samgn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að dregið verði verulega úr ríkisstyrkjum til hafna og lögmál samkeppni og markaðssjónarmiða innleidd. Markmiðið er að etja höfnum landsins saman í verðsamkeppni sem mun að lokum leiða til fækkunar hafna og nauðsynlegrar hagræðingar að mati ráðamanna.`` --- Ég held að mikilvægt sé að hafa þessi orð til hliðsjónar, ,,nauðsynlegrar hagræðingar``, því að það skýrist þegar líður á þessa umræðu hvað við er átt með þeim orðum. --- ,,1. minni hluti er almennt þeirrar skoðunar að samkeppni sé hagkvæm og til hagsbóta fyrir heildina. Hér gilda hins vegar sérstök sjónarmið sem gera það að verkum að forsendur samkeppni vantar. Byggðirnar eiga allt sitt undir því að hafnirnar starfi og ef stjórnvöld búa höfnum slíkt starfsumhverfi að rekstrargrundvöllur einhverra þeirra brestur er ríkisstjórnin í reynd að taka þá pólitísku ákvörðun að leggja þær niður.`` --- Og það þarf ekki að fara í grafgötur um það að verði einhverjar hafnir lagðar niður er það dómur á þá byggð sem stendur við þá höfn.

[11:45]

,,Það er mat 1. minni hluta að heiðarlegra hefði verið af ríkisstjórninni, úr því að hún hefur tekið þessa ákvörðun og vill gera þessa aðför að landsbyggðinni, að segja það hreint út hvar skuli vera byggð og hvar ekki í stað þess að etja byggðunum saman á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Það er eðli samkeppninnar að einhver verður undir í henni og þegar menn stofna til samkeppni um lífsbjörgina sjálfa getur tjónið orðið óbætanlegt og skyldu menn hafa það í huga þegar þeir fjalla um þessi mál. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær afleiðingar sem þetta mun hafa í þeim byggðum sem verða undir.`` --- Og við höfum um nokkuð langt skeið orðið vör við hvaða áhrif þróun núverandi fiskveiðistjórnarkerfis hefur haft á þróun fasteignaverðs í þessum byggðum. Hér skal bætt í, hér skal enn veist að landsbyggðinni. Ég trúi því varla, virðulegi forseti, eftir öll afrek hæstv. ríkisstjórnar að hún ætli að enda feril sinn með þessum hætti.

,,Fyrsti minni hluti hefur mjög miklar efasemdir um ágæti þeirra breytinga sem hér eru lagðar til,`` --- og er þá vægt að orði komist --- ,,og óttast að verði þær að veruleika sé verið að tefla í tvísýnu hvaða byggðir muni lifa og hverjar ekki. Einnig verður að viðurkenna að uppbygging hafna á landinu hefur ekki tekið mið af því hvar væri hagkvæmast að hafa þær. Önnur sjónarmið hafa verið höfð að leiðarljósi við uppbyggingu hafnanna og þá einkum byggðasjónarmið og krafan um að þéttbýli og þéttbýliskjarnar fái notið nábýlis síns við sjávarauðlindina. Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi gerir það að verkum að staða margra hafna og byggðarlaga ræðst fyrst og fremst af því hvar takmörkuðum sjávarafla er uppskipað. Fiskveiðistjórnarkerfið er því enn ein rök gegn þessu frumvarpi. Engar forsendur eru fyrir því nú að samþykkja lög sem gera ráð fyrir að þessar hafnir keppi sín á milli með þeim hætti sem fyrirhugað er. Í frumvarpinu felst að stjórnvöld treysta sér einfaldlega ekki til að tryggja búsetu í byggðum landsins né hafa þau dug í sér til að taka ákvörðun um það hvaða byggðir skuli lifa og hverjar ekki. Þess í stað á að etja þeim saman á ógeðfelldan hátt. Slík vinnubrögð eru þinginu ekki sæmandi og því leggst 1. minni hluti gegn því að frumvarpið verði samþykkt.``

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir hin almennu sjónarmið sem við höfum gegn því frv. sem við ræðum nú. Við óttumst mjög afleiðingar sem munu óhjákvæmilega fylgja því ef byggðum landsins verður att saman í samkeppni um lífsbjörgina á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Að hluta til kom þessi umræða óhjákvæmilega upp í nótt þegar við ræddum um stjórn fiskveiða því þetta er tengt henni órjúfanlegum böndum og það er með hreinum ólíkindum hvers vegna menn setja fram hugmyndir af þessum toga.

Ég held að nauðsynlegt sé að rifja það upp að varla er til ein einasta höfn í landinu sem ríkisvaldið hefur ekki komið að á einn eða annan hátt. Kannski hefur það minnst komið að höfninni í Reykjavík (Gripið fram í: Kópavogi.) og hugsanlega Kópavogi. En að þessum höfnum undanskildum hafa þær meira og minna verið byggðar upp í gegnum ríkisframlög. Og halda menn, eru hér inni menn sem láta sér til hugar koma að þau framlög hafi verið sett fram á grundvelli einhverra samkeppnissjónarmiða, hafi verið sett fram á grundvelli sjónarmiða um það hvaða hafnir eigi að lifa og hverjar ekki? Nei, virðulegi forseti, sagan sem þegar hefur verið skrifuð gerir það að verkum að það eru litlar sem engar forsendur í dag til þess að etja byggðunum saman á þann hátt sem hér er ætlunin að gera.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að fara aðeins yfir nokkrar umsagnir sem fylgja þessu frv., bara til þess að draga það fram hvernig forsvarsmenn hafnanna líta á þetta frv. Það eru menn og konur sem þekkja rekstur þessara hafna og gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta kann að hafa í för með sér.

Við skulum byrja á því að fara á Reykjanesið, við skulum koma við í Grindavík. Við skulum aðeins fara yfir það hvaða afleiðingar þetta kann að hafa. Ein meginbreytingin í þessu frv. er sú að um leið og dregið verður úr ríkisstuðningi er hugsunin sú að höfnunum sé ætlað að standa sjálfum undir sér þrátt fyrir uppbyggingu þeirra, eins og ég rakti hér áðan, og í reynd eru kannski litlar sem engar forsendur til að fara þessa leið. Hugmyndin er sú að svokallað aflagjald verði einn meginþátturinn í tekjum hafnanna í stað ríkisframlags sem nú er, enda gera fjárlög ráð fyrir, ef ég man rétt, að spara einn milljarð í framlög til hafna. Þess ber að geta einnig að þessi milljarður hefur fyrst og fremst farið út á landsbyggðina því hafnirnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi hafa nú um langt skeið ekki fengið ríkisstyrki. Þess vegna er fyrst og fremst verið að draga saman á landsbyggðinni og það eru nokkuð skýr skilaboð til þess fólks sem þar býr. Við fórum hér yfir stöðuna í landbúnaði í gær og nú er það sjórinn, þessar tvær meginundirstöðugreinar atvinnulífs á landsbyggðinni.

Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, ætla ég að leyfa mér að byrja í Grindavík og fara yfir þá umsögn sem þaðan kemur en þar segir, með leyfi forseta: (GHall: Hvaða dagsetning er á þessu leyfi, hv. þm.?) Það er 28. febrúar 2002. (GHall: Akkúrat.) Þar segir, með leyfi forseta:

,,Afnám samræmdrar gjaldskrár og niðurfelling ríkisþátttöku í framkvæmdum eru breytingar sem hafa afdrifarík áhrif á Grindavíkurhöfn. Höfnin er nú þegar skuldsett vegna eldri og yfirstandandi framkvæmda. Höfnin þarfnast frekari stækkunar bæði í viðleguplássi og dýpkun innan hafnar ...`` --- En þess ber að geta, hv. þm. sem kallaði hér fram í, Guðmundur Hallvarðsson, að ég hef einnig rætt við forsvarsmenn Grindavíkurhafnar. (GHall: Nýlega?) Já, af því að hv. þm. kallar, ætli það séu ekki tíu dagar síðan eða svo. (ArnbS: Eru þeir búnir að segja sig úr Hafnasambandi sveitarfélaga?)

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi frammíköll sem hér koma, en ég ætla að leyfa mér að halda áfram með afstöðu Grindavíkurbæjar sem kynnt hefur verið hér á hinu háa Alþingi:

,,Afnám samræmdrar gjaldskrár og niðurfelling ríkisþátttöku í framkvæmdum eru breytingar sem hafa afdrifarík áhrif á Grindavíkurhöfn. Höfnin er nú þegar skuldsett vegna eldri og yfirstandandi framkvæmda. Höfnin þarfnast frekari stækkunar bæði í viðleguplássi og dýpkun innan hafnar til þess að geta veitt heimaflotanum fullnægjandi þjónustu. Samkeppnisaðstaða hafnarinnar gagnvart öðrum höfnum skekkist því verulega nái framangreindar breytingar fram að ganga. Hið nýja frumvarp gerir ráð fyrir að hafnir bæti sér upp missi ríkisframlaga með sjálfsákvörðunarrétti um gjaldskrá. Er þá fyrst og fremst horft til hækkunar á aflagjaldi. Samkeppnissvigrúm Grindavíkurhafnar í aflagjaldinu er nánast ekkert þar sem höfnin tekur 59% af tekjum inn í formi aflagjalds.`` --- Það má sjá á þeim lista sem fylgir þessari umsögn. --- ,,Það sjá allir sanngjarnir menn að samkeppnisstaða Grindavíkur er engin gagnvart t.d. Hafnasamlagi Suðurnesja með 14%`` --- og ýmsum öðrum höfnum á Suðurnesjum og í Hafnarfirði þar sem aflagjaldið er miklum mun lægri prósenta, og því eitthvert svigrúm þar. Svo segir áfram: ,,Við í Grindavík kippum okkur ekki upp við samkeppni. En við viljum fá að keppa á jafnréttisgrundvelli.`` --- Það er akkúrat kjarni málsins. --- ,,Þrátt fyrir að framkvæmdir við nýja innsiglingu hafi nú þegar skilað hafnarsjóði verulegum tekjuauka virðist þessi breytta samkeppnisstaða kippa rekstrargrundvellinum undan hafnarsjóði Grindavíkur.``

Það er þetta sem er dregið fram, virðulegi forseti, með skýrum hætti, að svona samkeppni sem á að koma á fót getur aldrei orðið á jafnréttisgrundvelli. Þess vegna standast forsendur fyrir þessu frv. ekki eina einustu skoðun. Ef við skoðum aflagjald sem hlutfall af tekjum á árinu 2000 er Reykjavík með 5,58% af heildartekjum, Hafnarfjörður með 15,98%, Vestmannaeyjar með 28,9%, Fjarðabyggð með 29,01%, Ísafjarðarbær með 31,73%, Hafnasamlag Suðurnesja --- það skal ítrekað að þetta er á árinu 2000, á meðan Hafnasamlagið var og hét --- 13,79%, Akranes 25,67%, Grindavík 58,94%, Grundartangi 0%, Þorlákshöfn 31% og Snæfellsbær, sem ætti ekki að vera hæstv. samgrh. ókunnur, með 53,37%. Hér er dregið fram hver staða þessara hafna er. Þetta eru reyndar tölur frá árinu 2000 en ekkert hefur komið fram um að þetta hlutfall hafi breyst mikið.

Það er í reynd, virðulegi forseti, alveg sama hvar borið er niður í þessum mörgu álitum sem ég hef hér undir höndum, hafnir á landsbyggðinni hafa af þessu mjög miklar áhyggjur. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að í meðförum samgn. á þessu tiltekna máli sem hefur reyndar verið nokkuð lengi til meðferðar, þeirri grunnhugsun sem birtist í þessu máli, hafa engin sannfærandi rök verið sett fram sem styðja það að þessi leið sé farin.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að halda hér aðeins áfram við að fara yfir umsagnir. Reyndar er hluti þessara umsagna frá því í fyrra þegar málið kom fyrst fyrir nefndina en þær breytingar sem gerðar hafa verið breyta litlu í sjálfu sér um þau grundvallarsjónarmið sem hér koma fram.

Hér er t.d. athugasemd frá Vestmannaeyjum þar sem mjög hefur verið varað við því að þessi leið verði farin, og svona get ég áfram rakið þær umsagnir sem hér er að finna. Ég ætla kannski ekki í fyrstu ræðu minni í þessu máli --- þær eiga án nokkurs vafa eftir að verða fleiri --- að fara frekar yfir annað en þau meginsjónarmið sem við höfum sett fram, og gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem búa að baki því að við, ég og hv. þm. Kristján L. Möller, leggjumst eindregið gegn samþykkt þessa frv. Ég mun í síðari ræðum mínum í umræðum um þetta mál gera frekari grein fyrir einstökum greinum og fara þá betur yfir þær sem eru margar hverjar frekar tæknilegrar útfærslu. Ég hef hins vegar rakið þau grundvallarsjónarmið sem við höfum og búa að baki því að við leggjumst eindregið gegn þessu frv.