Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:07:26 (5092)

2003-03-14 12:07:26# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:07]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir rétt að benda á og endurtaka það að hér er verið að vitna til umsagna margra hafna og Hafnasambands sveitarfélaga sem eru frá upphafi árs 2002.

Flestar þær umsagnir sem bárust og voru með athugasemdum hafa leitt til þess að frv. var verulega breytt enda segir, með leyfi forseta, í athugasemdum við frv.:

,,33. ársfundur Hafnasambands sveitarfélaga tekur undir skýrslu stjórnar fyrir árið 2001--2002 þar sem fjallað er um frumvarp til nýrra hafnalaga. Einnig tekur fundurinn undir framsögu formanns hafnasambandsins um frumvarpið og þær tillögur til breytinga sem þar koma fram.``

Á fund samgn. komu formaður Hafnasambands sveitarfélaga og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og lögðu eindregið til að frumvarpið yrði samþykkt með þeim breytingum sem það hafi tekið. Það er kannski sjónarmið út af fyrir sig að koma hér og halda þessu fram í einhverju pólitísku togi og vera með villandi upplýsingar um málið.

Af því að hv. þm. nefndi Vestmannaeyjar vil ég geta þess sérstaklega að hér eru ætlaðar framkvæmdir á þessum árum, 2003--2006, upp á 602 milljónir og hlutur ríkisins er tæpar 450 milljónir. Auðvitað hefur þetta verið svona í gegnum árin. Gerðar hafa verið áætlanir jafnt hjá höfnum sem ríki. Síðan þegar kemur að endanlegu uppgjöri þá er auðvitað sest niður og farið yfir málin þannig að þær breytingar sem hafa orðið á frv. hafa leitt til þess að formaður Hafnasambands sveitarfélaga og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga mæla með því að frv. verði samþykkt.