Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:36:46 (5097)

2003-03-14 12:36:46# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:36]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo merkilega til að ég held að það séu örfá skip til sem eru skráð frá Lúxemborg en eins og menn vita er náttúrlega ekki hafngengt þangað.

En aðeins út af því sem hv. þm. kom inn á, hann hafði áhyggjur af hinum litlu höfnum, þá þykir mér rétt að geta þess sérstaklega að styrkir til þessara hafna vegna viðlegu voru áður 60% og vegna dýpkunar 75%. Nú hækkar þetta framlag þannig að hvort tveggja fellur undir 90% styrk. Þannig er að sumu leyti verið að þrengja að, eins og hv. þm. kom inn á, þ.e. varðandi samkeppni hinna stærri hafna, en hér er tekið verulega á þessum litlu höfnum. Ég ætla að telja upp t.d. Súðavík, Hólmavík, Bakkafjörð, Blönduós, Grímsey, Drangsnes, Borgarfjörð eystri, Hvammstanga, Kópasker og Breiðdalsvík og svo mætti lengi telja. Það er verið að auka styrk til þessara hafna þannig að þegar menn koma hér í ræðustól --- að vísu hefur hv. þm. Jón Bjarnason ekki látið það frá sér fara --- og tala eins og ríkisstjórnin gangi um með sveðju, blóðug upp að öxlum og ætli að leggja af flestar hafnir landsins eru menn náttúrlega að vaða reyk, pólitískan reyk. Það er vont mál vegna þess að það veldur óróa í hinni dreifðu byggð þegar svo er talað að hér sé vond ríkisstjórn að verki sem vilji landsbyggðinni allt illt. Þvert á móti er verið að gera þeim starfsumhverfið enn betra, en þeir sem þurfa ekki á styrkjum að halda eiga auðvitað ekki að fá þá.

Síðast en ekki síst er hækkun aflagjaldsins úr 1% upp í 1,87% auðvitað sjálfsagður hlutur. Telja menn annars í raun nauðsynlegt að styrkja útgerðina með þeim hætti sem gert hefur verið í gegnum árin? Nei, herra forseti. Ég tel eðlilegt að hér sé tekið á og við lögum okkur að nútímanum. Að við aðlögum okkur að umhverfinu eins og það er nú en séum ekki með þetta kerfi eins og það hefur verið og er gjörsamlega gengið sér til húðar, enda segja þeir Árni Þór Sigurðsson, formaður hafnarstjórnar Reykjavíkur, forseti borgarstjórnar og formaður Hafnasambands sveitarfélaga, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga: Já, áfram með frumvarpið, samþykkið það.