Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:41:22 (5099)

2003-03-14 12:41:22# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fara fram mjög athyglisverðar umræður um frv. ríkisstjórnarinnar til hafnalaga. Ég hef að mestu leyti fylgst með þeim en missti þó af hluta þeirra í byrjun hádegisins vegna þess að ég sótti fund hjá kosningastjórn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs Suðvesturkjördæmisins þar sem m.a. var rætt um Íraksmálið. Við tókum upp þá áskorun sem fram hefur komið frá verkalýðshreyfingunni, öllum helstu samtökum launafólks á Íslandi og friðarhreyfingunni ,,Átak gegn stríði`` sem staðið hefur fyrir fjöldamótmælum gegn hernaðaráformum Bandaríkjanna gagnvart Írak núna hvern laugardag við sendiráð Breta og Bandaríkjanna, sérhvern laugardag í langan tíma, og fyrirhuguð eru mótmæli á morgun. Þetta fer alltaf fram klukkan tvö. En við ákváðum á þessum fundi að senda frá okkur áskorun, áskorun til almennings um að virða hvatningu verkalýðshreyfingarinnar og friðarhreyfingarinnar, að taka af krafti þátt í fjöldamótmælum gegn fyrirhuguðum árásum á Írak.

Herra forseti. Ég vildi að það kæmi fram að við höfum orðið við þeirri hvatningu sem komið hefur frá verkalýðshreyfingunni og friðarhreyfingunni um að taka þetta mál upp.

Varðandi hafnalögin fer því fjarri að við séum með einhverja allsherjarfordæmingu á því að gerðar verði breytingar á hafnalögum. Því fer fjarri. Við teljum að þar sé sitthvað að finna sem þurfi að færa til betri vegar eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hins vegar teljum við að í þessu frv. og í þessum breytingum sé að finna ýmislegt mjög varasamt sem við gagnrýnum mjög harðlega. Og þar vil ég gera ágæta yfirferð hv. þm. Jóns Bjarnasonar að minni, hans orð að mínum.

Fyrst aðeins um samráðsþáttinn. Það segir í nál. meiri hlutans að hér sé um mikið hagsmunamál að ræða fyrir byggðirnar í landinu. Það er að sönnu rétt. Ljóst er að frv. snertir veigamikla hagsmuni margra byggðarlaga í landinu og því mikilvægt að vel takist til við lagasmíðina. Á þessa leið segir í nál. og undir það skal tekið. Málflutningur okkar miðast jú að því að vandað verði til verkanna.

Þá að samráðinu. Í nál. er rakinn aðdragandinn að þessu frv., vísað í nefnd sem skipuð var í árslok árið 1999 og síðan rakið hvernig þar verða til drög að frv. sem koma inn í þingið og taka síðan breytingum eftir samráð við aðskiljanlega aðila.

[12:45]

Það sem ég vildi segja um samráð er þetta: Allt of oft gerist það að ríkisstjórnir, ekki bara þessi, reyna að koma fram sinni pólitísku stefnu oft í hinu ýrasta formi í upphafi og síðan er gengið til samstarfs, svokallaðs samráðs við aðila sem færa fram mikla gagnrýni á þessa sömu pólitísku stefnu. Þannig byggir niðurstaða samráðsins oft á því að menn reyna að ná fram einhverjum betrumbótum, einhverjum breytingum á upphaflegum tillögum sem menn hafa verið mjög ósáttir við. Mér finnst mikilvægt að við höfum það í huga að niðurstaða getur þannig orðið á þann veg að hún sé í reynd ekki að skapi aðila þótt þeir hafi á endanum lagt blessun sína yfir hana. Og þó að ég efist ekki um að þeir aðilar sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson taldi upp hafi lagt blessun sína yfir frv., þá er samhengið þetta. En hér er komið að okkur á Alþingi að skoða þetta út frá okkar sjónarhóli. Þetta vildi ég nefna í upphafi um samráðið.

Síðan er augljóst að það er sami rauði þráðurinn sem gengur í gegnum þetta frumvarp og ýmis önnur frumvörp sem liggja fyrir þinginu og hefur áður verið þröngvað í gegnum Alþingi og lúta að einkavæðingu; hlutafélagavæðingu og einkavæðingu. Alls staðar er hugsunin á sama veg. Starfsemi sem áður var þjónustustarfsemi fyrst og fremst er gerð að rekstrareiningum á markaði, þ.e. þjónustustofnanirnar. Fyrst í stað eru þær gerðar að hlutafélögum, reyndar er upphaflega einvörðungu veitt heimild til að gera stofnanirnar að hlutafélögum og alltaf er látið í veðri vaka að ekkert annað standi til. Við munum öll hvað gerðist með Landssímann, svo dæmi sé tekið. Þar var því mjög afdráttarlaust lýst yfir að ekki stæði til annað en gera breytingu á rekstrarformi stofnunarinnar, ekki stæði til að selja hana. Síðan þekkjum við öll framhaldið, tilraunir ríkisstjórnarinnar til þess að selja hlut almennings í þeirri stofnun.

Þannig að þetta er allt á sama veg. Fyrst er starfsemin gerð að rekstrareiningu á markaði, að hlutafélagi, og eftir að hún hefur verið leyst undan umsjá almennings, hinu pólitíska valdi, eftir að fulltrúar stjórnmálanna koma ekki lengur að stjórn stofnananna, þá þarf að tryggja eftirlit fyrir hönd neytandans, fyrir hönd almennings, með einhverjum hætti. Hvernig er það gert? Það er gert á tvennan hátt. Annars vegar er samkeppnisþátturinn færður undir Samkeppnisstofnun. Hún á að hafa eftirlit með því að samkeppnisreglur og samkeppnislög séu virt. Síðan er einhverri stofnun falið að annast eftirlit með innri starfsemi viðkomandi stofnunar. Varðandi raforkuna þá er það Orkustofnun sem á að annast þann þátt og síðan Samkeppnisstofnun sem á að fylgjast með sölu og dreifingu á raforkunni. Í þessu frv. er það Siglingastofnun Íslands sem á að annast þá eftirlitsskyldu fyrir hönd ríkisins, en einnig á Samkeppnisstofnun að koma að eftirlitinu.

Í athugasemdum við frv. á bls. 12 segir, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra.``

Þetta er sú breyting sem verður, en í 2. gr. frv. er síðan vísað í Siglingastofnun sem eftirlitsaðila. Þetta er hugsunin. Starfsemi sem áður var þjónustustarfsemi sem heyrði undir hið pólitíska vald er tekin og færð yfir á markað og eftirlitið verður með öðrum hætti, ekki fulltrúar sveitarstjórna eða pólitískt kjörnir aðilar, heldur Samkeppnisstofnun annars vegar og síðan tiltekin eftirlitsstofnun hins vegar.

Þetta er því allt í takt við það sem gerist annars staðar. Þetta gerðist líka með Símann. Hann var færður yfir á markað. Síðan er Samkeppnisstofnun sigað á þá stofnun og við þekkjum öll afleiðingarnar. Það hefur stundum verið til góðs og stundum til ills að mínum dómi. Þetta er ekki gott form. (Samgrh.: Lægstu gjöld í veröldinni.) Lægstu gjöld í veröldinni, segir hæstv. samgrh. Mér finnst þetta vera athyglisvert, að minna okkur á það að áður en Síminn var gerður að hlutafélagi þá buðu Íslendingar upp á lægstu símgjöld í heiminum, í allri veröldinni. (Samgrh.: Eftir það.) Eftir það, segir hæstv. samgrh. Áður. Fyrir þann tíma. Ég bið hæstv. ráðherra um að snúa sér til starfsmanna Landssímans sem hafa gögn um þetta efni. Ég man eftir því að Bergþór Halldórsson, einn af yfirmönnum Símans, birti mjög athyglisverðar greinar í Morgunblaðinu sem síðan voru teknar upp í leiðara þar sem hann tók þetta einmitt upp. Og ég er með undir höndum töflur, samanburðartöflur sem sýna að símgjöld á Íslandi áður en Síminn var gerður að hlutafélagi voru þau lægstu í heiminum. (Samgrh.: Og eftir líka.) Eftir líka, segir hæstv. ráðherra. Jú, jú, það er alveg rétt að þessi þróun hefur haldið áfram. En hún er framkvæmd á allt annan hátt.

Ég minnist þess að hafa átt samræður við einn af yfirmönnum Símans, einn af stjórnendum Símans --- ég nota helst aldrei þetta hugtak ,,yfirmaður`` eða ,,undirmaður``. En einn af stjórnendum Símans hafði einhvern tímann á orði við mig hvernig umhverfið, hið alþjóðlega umhverfi hefði breyst. Við sóttum áður samstarf til t.d. norrænu símstöðvanna og fengum aðstoð og hjálp frá þeim. Og fulltrúar símanna, landssímanna á Norðurlöndum komu saman til að leggja á ráðin um hvernig þeir gætu stutt þessar stofnanir gætu veitt hver annarri stuðning. Síðan eftir að þær voru gerðar að hlutafélögum þá er öldin heldur betur önnur. Þá mæta allir með hnífinn upp í erminni vegna þess að nú má ekki segja frá einu eða neinu. Nú eru allt orðið viðskiptaleyndarmál. Nú eru allir að keppa. Og fyrirtækin eru í eign annarra aðila. Danski síminn var t.d. seldur til Chicago, Ameritech hét fyrirtækið sem keypti yfir 30% í símanum og gerði ensku að opinberu máli í danska landssímanum. Þá voru bara önnur viðhorf uppi. En við nutum góðs af hinu alþjóðlega samstarfi á þeim tíma þegar hugsun samstarfs og samhjálpar var uppi og færði okkur einhverja bestu símastofnun í heiminum, með lægstu símgjöldin sem fundust á byggðu bóli. Það sama gilti ekki um öll millilandasímtöl, en innanlandssímtöl og einnig farsímasímtölin voru þau lægstu sem fyrirfundust. Þetta er staðreynd. Og það var áður en Síminn var gerður að hlutafélagi, áður en hann var settur út á braskmarkaðinn. Gerður að braskbúllu, eins og Hreinn Loftsson, fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar, komst einhvern tímann að orði þegar Síminn fór að fjárfesta út og suður og tapaði við það miklum fjármunum í ævintýramennsku sem sú stofnun lagðist í á þeim tíma.

En áður en hæstv. ráðherra fór að kalla hér fram í og taka þátt í umræðunni á örvandi hátt, og kann ég honum bestu þakkir fyrir það, þá var ég þar kominn að ég var að nefna að Síminn var settur inn í nákvæmlega sömu umgjörð og verið er að tala um hér. Fjarskiptastofnun annast eftirlitið og að öðru leyti heyrir hann undir samkeppnislög og Samkeppnisstofnun. Þetta er umhverfið sem við erum að skapa eða ríkisstjórnin er að skapa allri þjónustustarfsemi í landinu. Ég ætla aldrei að þreytast á því að minna á hve mikilvægt það er að við höfum allan heiminn undir og allar þær fjölþjóðlegu skuldbindingar sem við erum að undirgangast þegar við gerum kerfisbreytingar af þessu tagi í samfélagi okkar, því þarna er mjög mikilvægt samspil.

Ég hef oft áður vísað í GATS-samningana, General Agreement on Trade in Services, sem við erum núna á bólakafi í. Þar hafa einstök ríki reist kröfur hvert á annað, við höfum fengið kröfur frá Bandaríkjunum, Indlandi og Japan sem hafa krafist þess að við opnum menntageirann svo dæmi sé tekið fyrir samkeppni. Evrópusambandið hefur krafist þess að viðskiptaþjóðir þess opni vatnið fyrir samkeppni. Um leið og búið er að undirgangast slíkar skuldbindingar þá er það svo að starfsemi sem hefur verið markaðsvædd, gerð að hlutafélagi og sett út á markað undir samkeppnislög, er því ofurseld þeirri hættu að erlendir jafnt sem innlendir samkeppnisaðilar kæri á grundvelli samkeppnislaga, því þá má ekki lengur niðurgreiða starfsemi. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ákvarðanir nú um að styrkja smæstu hafnirnar svo dæmi sé tekið umfram það sem gert er gagnvart hinum stærri, komi til með að standast slíkar eldraunir þegar við erum komin inn í þetta samkeppnisumhverfi. Ég hef miklar efasemdir um þetta. --- Hæstv. forseti er mjög hótandi hér með hamar í hendi.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. að gera hlé á máli sínu þegar vel stendur á, eða að ljúka máli sínu innan tveggja, þriggja mínútna.)

Það stendur ágætlega á að gera hlé á máli mínu núna.