Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 14:32:12 (5103)

2003-03-14 14:32:12# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og félagi hans hv. þm. Ögmundur Jónasson hafa áttað sig á þeirri mikilvægu staðreynd að það hafnalagafrv. sem hér er til umræðu gengur út á það að styrkja stöðu fiskihafnanna. Og vegna þess sennilega hafa þeir þurft að finna atriði til að ræða um sem ekki er óeðlilegt að benda á, þá ræða þeir nokkuð mikið um 3. tölul. 8. gr. sem snýr að því að það megi reka höfn sem hlutafélag. Nú er það svo í dag að hafnalögin ná ekki yfir slíkar hafnir, þannig að ekki er hægt að setja þeim neins konar reglur eða hafa hönd á í gegnum eftirlit Siglingastofnunar o.s.frv. Það er megintilgangur þessa ákvæðis að hafnalögin nái yfir allar hafnir landsins. Það er ekki svo eins og reynt er að láta liggja að að megintilgangur frv. sé að einkavæða hafnir landsins. Það er alger grundvallarmisskilningur. Farið er mjög rækilega yfir þetta í frv.

Mergurinn málsins er sá að við erum að leggja hér á ráðin um að styrkja hafnirnar. Eins og fram kemur í hafnaáætluninni, þ.e. þeim hluta í samgönguáætluninni sem við höfum nýlega samþykkt, er verið að láta meiri fjármuni til uppbyggingar fiskihafnanna um allt land með ríkisstuðningi en nokkru sinni áður og það er gert ráð fyrir því næstu fimm árin. Þegar litið er til síðustu þriggja ára hefur aldrei verið látið jafnmikið fjármagn til uppbyggingar hafnanna í landinu en þau ár. Það er því alger viðsnúningur á staðreyndum að láta að því liggja að við séum að ganga gegn hagsmunum fiskihafnanna í landinu.