Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 14:41:12 (5107)

2003-03-14 14:41:12# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[14:41]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér ákaflega á óvart þegar ég áttaði mig á því, þegar samgönguáætlun var lögð fram af hæstv. ráðherra, að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra ætluðu að koma með þetta mál aftur inn til þings, þ.e. frv. til hafnalaga sem við nú ræðum og lagt var fram á síðasta þingi og fékk vægast sagt algjöra falleinkunn. Menn fundu frv. ýmislegt til foráttu, jafnt á Alþingi og á hafnasambandsþingi sem haldið var rétt eftir að frv. var lagt fram. Þess vegna kom það mér á óvart að hæstv. ríkisstjórn skyldi láta sér detta í hug að koma fram með þetta á nýjan leik. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gat þess hér við 1. umr. um málið og leiddi að því líkur og spurði hvort hæstv. ráðherra hefði verið plataður og hver hafi í raun og veru platað hann upp úr skónum til að leggja þetta frv. fram.

Það er alveg með ólíkindum, herra forseti, hvernig ríkisstjórnin heldur áfram að ráðast á sveitarfélög í landinu og hinar dreifðu byggðir, sveitarfélög á landsbyggðinni. Það besta eiginlega við að þinginu er að verða lokið og Alþingi sent heim er að þá kannski verður ríkisstjórnin að stoppa við og vonandi hætta þá árásir núv. ríkisstjórnar á íbúa landsbyggðarinnar, á sveitarfélög á landsbyggðinni og á fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni almennt. Og ætla ég að koma að því hér rétt á eftir.

Ég sagði, herra forseti, að í fyrra hefðu menn fundið frv. flest til foráttu. Sú barátta kom fram bæði frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar hér á hinu háa Alþingi og eins í samgn. einnig frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar, en þó með smáviðbót frá öðrum stjórnarflokknum. Þau viðbrögð sem frv. fékk á hafnasambandsþingi var eins og ég sagði áðan, algjör falleinkunn. Og mér er til efs að hæstv. samgrh. hafi nokkurn tímann, a.m.k. á þessu kjörtímabili, lagt fram jafnvitlaust frv. og þá var lagt fram.

Fram hefur komið, herra forseti, að eitthvað hafi frv. skánað og það er vel. En ég held að enn þá séu allt of margir ókostir við frv. Þess vegna trúi ég því ekki og fyrir því verður barist að þessari árás á hafnarsjóði sveitarfélaga, sérstaklega á landsbyggðinni, verði hrundið.

[14:45]

Kjarninn í þessu máli er náttúrlega sá að það á að afnema ríkisstyrki til hafna enda kemur fram í umræddri samgönguáætlun sem ég vitnaði til áðan hvernig þetta mun líta út, þ.e. að framlag úr ríkissjóði sem ætlað er nú 6,6 milljarðar kr. mun detta niður um 2 milljarða kr. á öðru tímabili samgönguáætlunar. Þetta er auðvitað málið í hnotskurn. Ríkisstjórnin er að koma með frv. þar sem draga á úr og minnka á ríkisstyrki til hafnargerðar og starfsemi tengdri höfnum hjá mjög mörgum höfnum, þó svo að nokkrar hafnir muni e.t.v. fara örlítið betur út úr þessu og það er kannski það góða við þá baráttu sem menn hafa sýnt gegn þessu frv. að örlítið af því hefur skánað.

Þetta er eins og ég sagði áðan, herra forseti, bein árás á margar sjávarbyggðir vítt og breitt um landið og ekki verður séð hvernig sveitarsjóðir eigi að geta staðið undir rekstri hafnanna, endurbótum og uppbyggingu ef frv. verður að lögum. Höfnunum er sem sagt ætlað að hækka aflagjöld sín og fá meiri tekjur í staðinn fyrir ríkisstyrkinn sem á að detta út. Við getum aðeins ímyndað okkur hvernig það verður. Mig minnir að ég hafi séð að þetta yrðu 500--600 millj., ef ég man rétt. Við getum ímyndað okkur hvernig þetta verður þegar og ef áframhaldandi breytingar í sjávarútvegi eiga sér stað. Hvað mun t.d. gerast hjá mörgum höfnum landsins ef menn færu allt í einu að draga úr eða jafnvel hætta um tíma rækjuveiðum vegna erfiðra rekstrarskilyrða í rækjubransanum á Íslandi eins og þau eru í dag? Hvað mundi t.d. gerast hjá mörgum hafnarsjóðum ef loðnubrestur yrði, ef það yrði engin loðnuveiði? Og hvað mun gerast, herra forseti, þegar hafnir fara að keppa um og bjóða niður og bjóða betur í landanir frystitogara? Í þessu sambandi rétt að hafa í huga annað atriði sem líka snýr að hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn, þ.e. þær breytingar sem hafa átt sér stað í skipaflutningum þar sem menn flytja gáma og annað slíkt, afurðir sem unnar eru vítt og breitt um landið, þ.e. hvernig mun þetta koma út? Við vitum að fjölmörg útgerðarfyrirtæki hafa neyðst til að sigla frá heimabyggðum sínum og landa í Reykjavíkurhöfn eða Hafnarfjarðarhöfn og spara með því mikla peninga.

Herra forseti. Ég hef áður sagt það og það hefur komið fram, að það kostar 1 millj. kr. minna að landa 400 tonna frystifarmi í Reykjavíkurhöfn eða Hafnarfjarðarhöfn, en í höfnum á Miðnorðurlandi. Útgerðarfélögin geta sparað sér 1 millj. kr. í flutningskostnað bara við þetta. Hvernig fer svo þegar samkeppni verður innleidd í þetta ef hinar stóru miklu hafnir fara að bjóða útgerðum afslátt á aflagjaldi á höfuðborgarsvæðinu og skipin sigla þá kannski enn frekar og enn þá fleiri til löndunar hér fyrir sunnan? Það verða þá ekki miklar tekjur sem koma í hafnarsjóði þeirra sveitarfélaga þegar þetta gengur fram.

Herra forseti. Það er alveg með ólíkindum hvað hæstv. ríkisstjórn með alla sína ráðherra í broddi fylkingar hvern á sínu sviði, endist við að koma hér fram með lagafrumvörp þar sem eru beinar árásir á sveitarfélög á landsbyggðinni, landsbyggðarfólk og þá starfsemi sem þar hefur átt sér stað. Fer þessu ekki að linna? Aðalkosturinn við að Alþingi verður sent heim núna næstu klukkutíma eða næstu daga er, að ég held, að við getum þá alla vega huggað okkur við að ekki koma fleiri árásarfrumvörp frá hæstv. ríkisstjórn gagnvart landsbyggðinni. Nóg er nú komið. Í þessu sambandi skal ég rifja aðeins upp nýjasta afrekið, þ.e. afrek hæstv. heilbrrh. þegar hann lagði fram frv. og notaði tækifærið þegar ríki og sveitarfélög voru að semja um breytta verkaskiptingu, notaði tækifærið þegar 15% voru tekin frá sveitarfélögunum og færð yfir til ríkissjóðs og lagði það til að leggja niður allar stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva út um allt land. (KHG: Var það ekki bara sjálfsagt?) Var það ekki bara hvað? (KHG: Var það ekki bara sjálfsagt mál?) Jú, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem kosinn er í Vestfjarðakjördæmi og er flokksbróðir hæstv. heilbrrh. Jóns Kristjánssonar. Það var sjálfsagt mál í ykkar huga. En það var ekki sjálfsagt mál í mínum huga. Þetta er enn eitt dæmið um miðstýringaráttu Framsfl. sem bitnar á landsbyggðinni, sveitarfélögum og íbúum landsbyggðarinnar. Hann vill draga allt hingað suður til Reykjavíkur, alla stjórnunarþætti og annað. Enda kom það fram í fjölmörgum umsögnum sem bárust af landsbyggðinni og líka reyndar af höfuðborgarsvæðinu, þar sem því var mótmælt að leggja niður stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva.

Landsbyggðarþingmenn sem vilja kenna sig við landsbyggðina eins og hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, eða hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem kallaði fram í áðan og taldi sjálfsagt að leggja niður þessar stjórnir, er ekki komið nóg? Er ekki komið nóg af árásum ykkar á starfsemi á landsbyggðinni? Við skulum rétt vona að landsbyggðarfólk noti tækifærið í kosningunum 10. maí til að kenna stjórnarflokkunum og þeim þingmönnum sem bjóða sig fram fyrir þá, hvort sem það er fyrir Sjálfstfl. eða Framsfl. í Norðurl. e., hæstv. heilbrrh. eða aðrir þingmenn, lexíuna og að kjósendur á landsbyggðinni muni tjá sig um þetta og segja að nóg sé komið af árásum stjórnarflokkanna á íbúa landsbyggðarinnar.

Frumvarpið til hafnalaga sem við ræðum nú er enn ein árásin sem sett er fram af hv. þm. Halldóri Blöndal sem startaði þessari vinnu sem þáv. samgrh. og skipaði nefnd undir formennsku hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hann startaði þeirri vinnu að búa til þessi nýju hafnalög, þessa nýjustu árás á sveitarfélög og íbúa landsbyggðarinnar. Það er alveg með ólíkindum, herra forseti, hve lengi á að halda áfram að mölva niður þjónustu og annað slíkt á landsbyggðinni. Þetta hefur birst í nýlegu vefriti fjmrn. Það er rétt að rifja það upp. Eiginlega má segja að þar hafi komið fram lokauppgjör hæstv. ríkisstjórnar gagnvart landsbyggðinni og byggðastefnu, skuldaskil ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar gagnvart landsbyggðarfólki. Um leið og hæstv. fjmrh. gengur hér í salinn þá ber að þakka fyrir það sem þar birtist og sett var fram myndrænt. Hvert kjördæmi var tekið fyrir sig og sýnt hvernig mélað var undan landsbyggðinni og starfsemi þar í stjórnartíð hæstv. ríkisstjórnar, skuldaskil eins og íbúafækkun upp á 18% á Vestfjörðum, skuldaskil eins og fækkun íbúa á Austurlandi upp á 10%, skuldaskil eins og fækkun íbúa um ein 15% eða 16% í Norðurl. v. (Gripið fram í.) Bragð er að þá barnið finnur.

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur hælt sér af skattkerfisbreytingunni svokölluðu sem gerð var í fyrra og átti að nýtast í fyrirtækjarekstri, auka rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækja og stuðla að því að fyrirtæki flyttu ekki úr landi eins og sagt var. Þetta er allt saman gott og göfugt. Þetta eru góð markmið. En hver var svo niðurstaðan? Við skulum fara yfir það líka vegna þess að það er ekki eingöngu verið að rústa hafnarsjóðum og gera þeim erfitt að reka sig. Það er líka höggvið í sama knérunn gagnvart atvinnurekstri á landsbyggðinni, t.d. í Norðurl. e. þar sem fyrirtæki þurfa að borga enn þá meiri skatta eftir þessa skattkerfisbreytingu en fyrir. Við skulum rifja það aðeins upp, herra forseti. Fyrirtækjaskattar voru lækkaðir úr 30% í 18%. Eignarskattar voru lækkaðir um helming og þjóðarbókhlöðuskatturinn upp á 0,25%, ef ég man rétt, var aflagður. En samfara því þurfti ríkissjóður að afla sér tekna með hækkun tryggingagjalds. Hver var svo niðurstaða þessarar breytingar? Í gögnum frá ríkisskattstjóra þegar verið var að ræða þetta mál kom fram að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi, áttu að hagnast eða það var áætlað að þau mundu hagnast um 3.000 millj. kr. á þessari skattkerfisbreytingu. En fyrirtæki í öllum öðrum skattumdæmum landsins, þ.e. á landsbyggðinni, komu út nánast á núlli. Sem dæmi um fyrirtækjarekstur þá þurftu eitthvað um tæplega þúsund lögaðilar, að mig minnir, á Austurlandi, að greiða meiri skatta eftir þessa breytingu en fyrir og það er auðvitað vegna þess að fyrirtæki á landsbyggðinni hagnast ekki eins mikið á lækkun eignarskatta. Þau greiða miklu meira vegna hækkunar tryggingagjalds vegna launagreiðsla og hafa ekki, því miður, skilað það miklum hagnaði að þau hagnist á lækkun skattprósentunnar úr 30% í 18%.

Þess vegna hefur þetta komið svona út. Ég nefni þetta nú, herra forseti, bara sem enn eitt dæmið um árás ríkisstjórnarflokkanna á landsbyggðina og landsbyggðarfólk. Þegar málin eru skoðuð, t.d. gagnvart eignarsköttunum, þá kemur það líka fram, herra forseti, að eignarskattar árið 2002 voru 6,2 milljarðar kr. í heildina. Hvernig skyldi nú skiptingin hafa verið milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar? Jú, hún var þannig að tæpir 5 milljarðar koma af eignarsköttum á höfuðborgarsvæðinu en 1,2 milljarðar af landsbyggðinni. Varðandi þessa lækkun sem ég hef gert hér að umtalsefni, lækkun eignarskattsins, þá getum við reiknað út hvaða fyrirtækjahópar, hvaða fyrirtækjarekstur græðir á þessari skattkerfisbreytingu og hver tapar.

Herra forseti. Því er auðvitað mjög skipt hvernig afkoma fyrirtækja er. Hún er nefnilega mjög breytileg. Það er ósköp eðlilegt að hagnaður af rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni sé minni þegar horft er til þess að fyrirtæki þar greiða hin háu flutningsgjöld sem áður hafa verið rædd á Alþingi. Það kemur fram að þau fyrirtæki sem greiða þessi háu flutningsgjöld hagnast auðvitað minna og njóta þar með ekki ávaxtanna af lækkun tekjuskattsins úr 30% í 18%.

[15:00]

Þetta er, herra forseti, alveg með ólíkindum. Þegar ég horfi yfir salinn finnst mér dapurlegt að hv. þm. sem eru kosnir af landsbyggðinni, t.d. hv. þm. Halldór Blöndal, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, skyldu ekki nota tækifærið í ríkisstjórnarflokkunum til að benda á þessi atriði, benda á þetta misrétti og stoppa það eða breyta því þannig að það efldi atvinnurekstur og styrkti rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni meira en það hefur gert. Voru allir steinsofandi þegar þessi frv. voru keyrð í gegn? (Gripið fram í: Ekki Kristinn.)

Við getum svo farið líka yfir það, herra forseti, hvernig þessi skattkerfisbreyting og hækkun á tryggingagjaldinu hefur komið við sveitarfélögin í landinu.

Hækkun tryggingagjaldsins sem sett var inn til að ná í tekjur fyrir ríkissjóð á móti því tekjutapi sem varð af tekju- og eignarsköttum lögaðila sem hér á höfuðborgarsvæðinu er mest, eins og fram hefur komið, hefur tryggingagjaldið verið hækkað og það hefur komið fram að greiðsla sveitarfélaga í formi tryggingagjalds varð allsvakaleg við þessa hækkun. Var hún þó ærin fyrir. Við getum tekið dæmi, herra forseti, af hinu ágæta bæjarfélagi Kópavogsbæ þar sem áætlað var að hækkun á greiðslum tryggingagjalda Kópavogsbæjar vegna þessarar skattkerfisbreytingar sem hv. þm. Gunnar Birgisson stuðlaði að og samþykkti gæti verið á bilinu 14--20 millj. kr. (GunnB: 4 milljónir.) 14--20 millj. kr. Við getum svo farið yfir það tekjutap sem sveitarfélögin í landinu hafa orðið fyrir við að breyta yfir í einkahlutafélög.

Hæstv. félmrh. hefur sagt í svari við fyrirspurn minni að það megi ætla í kringum einn milljarð kr. sem sveitarfélögin tapa út af þessari breytingu. Ætlar ríkisstjórnin að bæta sveitarfélögunum þetta tekjutap? Nei, sagði hæstv. félmrh. Páll Pétursson, sá hinn sami ráðherra og sagði að Framsfl. hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu. Markaðssetning sem hefur farið fyrir ofan garð og neðan, sem betur fer, samkvæmt skoðanakönnunum.

Nei, herra forseti, það er alveg sama hvar farið er þegar farið er yfir skuldaskil Framsfl. og Sjálfstfl. gagnvart landsbyggðinni. Það er alveg sama hvar við berum niður. Alls staðar hreinar árásir á landsbyggðina.

Ég get, herra forseti, farið yfir fleiri atriði. Ég held að það sé ágætt undir þessum lið þegar við ræðum þetta árásarfrv., breytingu á hafnalögum, að taka önnur árásarfrv. sem hafa komið fram eða árásir sem hafa átt sér stað og beinst gegn landsbyggðarfólki og fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni.

Eigum við að rifja aðeins upp þungaskattinn? Hækkun á þungaskatti bíls með vagn frá árinu 1998 jókst um 40--50% hjá þeim bílum sem aka í kringum 130 þús. km á ári. Hvert hefur þessi hækkun á þungaskatti farið? (Gripið fram í: Til baka?) Jú, til hæstv. fjmrh. Geirs Haardes. (Gripið fram í: Sem kemur við.) (Gripið fram í: ... sem nú rekur feitasta ríkissjóð allra tíma.) (SvH: Þar af leiðandi.) Þar af leiðandi, vegna þessarar miklu skattheimtu. Þungaskattur hefur hækkað um þetta, það hefur ekki verið hrakið og það er sannarlega svona. Þetta er frá árinu 1998. Auðvitað hefur þetta farið þráðbeint út í verðlagið. Þetta er ekki til þess að efla eða styrkja atvinnurekstur á landsbyggðinni eða styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja þar gagnvart fyrirtækjarekstri á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur líka komið fram í samtölum við forsvarsmenn fyrirtækja á mörgum stöðum á landsbyggðinni þar sem flutningskostnaðurinn er að steindrepa starfsemina og frekari útrás þeirra fyrirtækja mun sennilega eiga sér stað með því að hluti af starfseminni verður færður suður til Reykjavíkur til þess að losna við þessi háu flutningsgjöld. (HBl: Sumir fara í Kópavoginn.) (Gripið fram í: Halldór er á Nesinu.) Sumir ættu að fara út í Kolbeinsey. (Gripið fram í: Og vera þar.)

Herra forseti. Ég held að ég láti aðeins staðar numið við þessa landsbyggðarskatta og þessi árásarfrv. sem hafa dunið á landsbyggðarfólki og fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég hef á tilfinningunni að skuldaskilin sem fólk mun sýna þessari ríkisstjórn og þeirri landsbyggðarstefnu sem rekin hefur verið af ríkisstjórnarflokkunum, Framsfl. og Sjálfstfl., muni sjást í kosningunum 10. maí. Ég er ekki í vafa um það. (Gripið fram í: Framsfl. var einu sinni landsbyggðarflokkur.) Framsfl. hefur gleymt landsbyggðinni og það er alveg hárrétt sem hæstv. félmrh. hefur sagt og ber auðvitað að virða menn fyrir hreinskilni, þakka fyrir. Það er eðlilegt að þakka hana. Það er ekki svo oft sem menn gera það en ef ég sný mér aftur að þessu nýjasta árásarfrv., þ.e. frv. til hafnalaga, hefur það komið fram í samgn. að þar eru mjög skiptar skoðanir um arfavitlaust og vont frv. sem hæstv. samgrh. lagði fram í fyrra. Það hefur þó örlítið skánað en er engan veginn orðið ásættanlegt. Það kemur í ljós að nokkrar smærri hafnir landsins munu áfram njóta þess að fá ríkisstyrk við dýpkun eða viðhald plús það að fá auknar tekjur og vonandi verður það þannig að áfram verði landað þar afla ... (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðjG): Forseti spyr hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af sinni merku ræðu.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að telja hana merka, og ég á töluvert eftir.

(Forseti (GuðjG): Þá biður forseti hv. þm. að gera hlé á ræðunni því það höfðu verið boðaðar atkvæðagreiðslur kl. 3. Umræðu um þetta mál verður því frestað um sinn.)