Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:09:33 (5117)

2003-03-14 16:09:33# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það þýðir ekki fyrir hæstv. iðnrh. að koma hingað og vitna í skjöl eða fylgiskjöl sem Landsvirkjun hefur búið til. Landsvirkjun er auðvitað sektarlamb í þessu máli. Landsvirkjun er sökudólgur. Það var Landsvirkjun sem mörgum fannst hafa reynt að blekkja menn í þessu máli. Hæstv. heilbrrh. á mikið hrós skilið fyrir það hvernig hann sigldi fram hjá þeim misklíðarefnum sem í þessu voru.

Ég skal þá ekki hryggja hæstv. iðnrh. með því að vitna í tveggja manna tal, en ég greini hins vegar frá því að með leyfi setts umhvrh., Jóns Kristjánssonar, fékk ég til fundar við mig þá menn sem voru ráðgjafar hans í málinu. Ég fékk þá með leyfi hans til fundar við þingflokk Samfylkingarinnar. Og þeir fóru alveg skýrt í gegnum þetta mál, á hverju það byggðist, og það voru nákvæmlega engar vífilengjur á því. Þetta mál byggðist á því að lónið yrði 3,3 ferkílómetrar og hæðin 566 m yfir sjávarmáli. Það voru meira að segja færð ákveðin tæknileg rök fyrir því af hverju hæðin ætti að vera þessi. Þau rök voru m.a. þau að aurskolun mundi ekki virka við hærri lónhæð. Það eru tæknileg mál sem mér finnst ekki skipta máli. Orð skulu standa. Um þetta var sáttin sem var gerð. Þetta var það sem mér sem formanni stjórnmálaflokks var kynnt á sérstökum fundi sem var óskað eftir, ekki af mér heldur af hálfu þess sem úrskurðinn felldi. Þetta er sáttin sem var kynnt í öllum fjölmiðlum. Þetta er sáttin sem menn tóku fagnandi, þar á meðal sá karl sem hér stendur.