Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:16:53 (5121)

2003-03-14 16:16:53# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. gerði mikið úr því að vinna þetta í sátt. Því ítreka ég það sem hér hefur verið margsinnis komið fram, að úrskurður setts umhvrh. býður upp á sátt. Það er almennt mikil sátt um þennan úrskurð þó að formanni Vinstri grænna hafi orðið á í upphafi og (KolH: Þetta er einn af fjórum verstu kostunum.) brugðist rangt við. Hann sá greinilega mjög eftir því og sneri af leið. Það var skynsamlegt af honum.

Mér finnst hv. þm. oft tala eins og Alþingi sé bókstaflega framkvæmdaraðili og eigi alls staðar að vera með puttana. Það er bara ekki þannig. Alþingi býr til rammann fyrir óskaplega margt.

Einn hv. þm. stjórnarandstöðunnar fann meira að segja að því við mig að koma yfirleitt með þetta mál inn í þingið, hvað varðar Norðlingaölduveitu, vegna þess að samkvæmt lögum getur ráðherra í raun veitt þetta leyfi til veitunnar án þess að það sé samþykkt af Alþingi. En ég er náttúrlega þekkt fyrir að vera mjög líberal og kem auðvitað með málið fyrir þingið til að fá umfjöllun. Ég hélt að það mundi eingöngu fá jákvæða umfjöllun. Ég er svo sem ekki að kvarta yfir umræðunni.

Þetta er fyrst og fremst jákvætt mál þótt útfærsluatriði séu ekki öll í höfn. Fram undan er að Landsvirkjun hefur þær skyldur að hafa samráð við heimamenn og það held ég að skipti miklu máli.