Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:27:15 (5124)

2003-03-14 16:27:15# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 2. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:27]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það afar mikilvægt sem kom hér fram hjá hæstv. heilbrrh., áður settum umhvrh., varðandi það að útfærsla hans hafi miðað við 566 m yfir sjávarmáli. Þetta er afar mikilvægt og það sem skiptir öllu máli í því sem sagt hefur verið í dag.

Það þarf að ná sátt um málið. Það þarf að ná sátt um málið á milli heimamanna, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar. Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að miðað við orðalagið, miðað við orðin, er ákveðinn sveigjanleiki. En það skiptir auðvitað höfuðmáli við hvað var miðað þegar úrskurðað var í málinu. Þeir sem sættust á að farið yrði í Norðlingaölduveitu á þeim forsendum sem lagt var upp með, 566 m yfir sjávarmáli, eru þá komnir með ákveðna viðspyrnu, herra forseti, í þeim viðræðum sem þeir eru nú í gagnvart öðrum aðilum, Landsvirkjun í þessu tilfelli. Það er verulega dýrmætt að það skuli koma hér fram og að hæstv. heilbrrh., áður settur umhvrh., skuli gera það skýrt í þessari umfjöllun við hvað var miðað í þeirri útfærslu sem úrskurður hans byggði á.